Fótbolti

Vorum ekki alveg nógu þroskaðir síðast

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Þór Viðarsson er staðráðinn í að ná góðum úrslitum í síðustu tveimur leikjum Íslands í undankeppni HM.
Arnar Þór Viðarsson er staðráðinn í að ná góðum úrslitum í síðustu tveimur leikjum Íslands í undankeppni HM. vísir/vilhelm

Einn leikmaður gat ekki tekið þátt í æfingu íslenska karlalandsliðsins í Rúmeníu í dag en annars er staðan á hópnum góð. Ísland mætir Rúmeníu á fimmtudagskvöld, í undankeppni HM í fótbolta, og þarf að gera betur en í 2-0 tapinu á Laugardalsvelli í september.

„Staðan er fín. Sá eini sem gat ekki verið með á æfingu í dag er Viðar Örn [Kjartansson] sem þurfti að fara út af undir lok leiks á sunnudag með Vålerenga í Noregi. Hann er enn aumur í fætinum og við fylgjumst með stöðunni á honum,“ sagði Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari á blaðamannafundi í dag.

Arnar benti jafnframt á að Guðmundur Þórarinsson og Arnór Ingvi Traustason, sem spila í bandarísku MLS-deildinni, hefðu ferðast um langan veg:

„Þeir spiluðu báðir á sunnudaginn og þetta er langt ferðalag fyrir þá með miklum tímamismun. Við nýtum því tímann núna til að ná endurheimt. Leikurinn á fimmtudag er svo korter í tíu að staðartíma svo við höfum ágætis tíma til að ná okkur, en við þurfum bara að fara varlega,“ sagði Arnar.

„Áttum meira skilið en hentum því frá okkur“

Ísland kastaði frá sér raunhæfum möguleika á að komast á HM í Katar þegar liðið tapaði 2-0 gegn Rúmeníu á Laugardalsvelli í september, í leik sem fór fram í skugga hræringa hjá KSÍ en formaður og stjórn sambandsins voru þá nýbúin að segja af sér.

Dennis Man kom Rúmeníu yfir snemma í seinni hálfleik og Nicolae Stanciu bætti við seinna markinu seint í leiknum.

„Okkur fannst við sjálfir kasta leiknum frá okkur í september. Þeir voru kannski aðeins varnarsinnaðri en þeir höfðu verið fram að því. Þeir skoruðu seinna markið á 84. mínútu, úr skyndisókn, og fyrra markið kom einhvern veginn upp úr innkasti.

Við vorum ekki alveg nógu þroskaðir í okkar varnarleik í þeim leik. Það er það sem við tölum um núna, og höfum talað um undanfarna mánuði, sem er líka eðlilegt með liðið á þeim stað sem það er núna,“ sagði Arnar.

„Við nýtum ekki alveg nógu vel þau færi sem við fáum, og fáum aðeins of mörg mörk á okkur miðað við færin sem við fáum á okkur. Þannig lít ég til baka á leikinn við Rúmeníu í haust. Við áttum meira skilið en hentum því frá okkur,“ bætti hann við.


Tengdar fréttir

Álagsmeiðsli há Mikael: „Alls ekki erfiður í samskiptum“

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari segist hafa átt góð samskipti við Mikael Anderson. Meiðsli valdi því að Mikael sé ekki í landsliðinu núna og það bitni ekki á honum að hafa afþakkað boð Arnars í U21-landsliðið fyrir ári síðan.

Engir áhorfendur á leik Íslands í Rúmeníu

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu þarf ekki að hafa mikla áhyggjur af stuðningi rúmenskra áhorfenda á leik sínum í Búkarest á fimmtudaginn eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×