Fótbolti

„Ég er ungur ennþá“

Sindri Sverrisson skrifar
Birkir Bjarnason hefur nú leikið 105 A-landsleiki, flesta allra knattspyrnukarla á Íslandi.
Birkir Bjarnason hefur nú leikið 105 A-landsleiki, flesta allra knattspyrnukarla á Íslandi. Getty/Matthew Pearce

Birkir Bjarnason var svekktur yfir niðurstöðunni gegn Norður-Makedóníu í kvöld en stoltur af að hafa slegið leikjametið í íslenska karlalandsliðinu í fótbolta.

Ísland tapaði leiknum 3-1 eftir að hafa jafnað metin snemma í seinni hálfleik. Birkir lék sinn 105. A-landsleik og tók endanlega fram úr Rúnari Kristinssyni.

„Það er synd að tapa þessum leik. Ég er ótrúlega stoltur af þessum árangri og þetta er ótrúlega stórt fyrir mig og mína fjölskyldu. Hvað leikinn varðar þá er margt sem við gátum bætt í fyrri hálfleik. Við vorum þéttir og reyndum að vinna í því, en mér fannst við koma út í seinni hálfleik og gera mun betur. Við spiluðum hörku seinni hálfleik,“ sagði Birkir Bjarnason í samtali við RÚV strax eftir leik.

Birkir tók undir það að lið Norður-Makedóníu væri ekkert sérstaklega betra en það íslenska þrátt fyrir tapið í kvöld:

„Þetta er lið sem er búið að spila ótrúlega lengi saman. Við erum með rosalega mikið af nýjum leikmönnum. Við setjum þetta í reynslubankann og höldum áfram að þróa okkar leik. Ég efast ekki um að það er nóg inni í þessu liði og framtíðin er ótrúlega björt,“ sagði Birkir.

En ætlar hann að vera hluti af þeirri framtíð?

„Já, já. Ég er ekki að fara að hætta. Ég er ungur ennþá,“ sagði Birkir og glotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×