Fótbolti

Mikil dramatík er Morata og Mitro­vić skutu Spáni og Serbíu á HM í Katar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það ætlaði allt að sjóða upp úr er Aleksandar Mitrović skaut Serbíu á HM í Katar.
Það ætlaði allt að sjóða upp úr er Aleksandar Mitrović skaut Serbíu á HM í Katar. Carlos Rodrigues/Getty Images

Spánn og Serbía tryggðu sér farseðilinn til Katar í kvöld með dramatískum sigrum. Spánn vann 1-0 sigur á Svíþjóð og Serbía kom til baka gegn Portúgal.

Varamaðurinn Álvaro Morata tryggði Spáni 1-0 sigur á Svíþjóð er liðin mættust í uppgjöri toppliða B-riðils. Markið kom fjórum mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma og toppsætið þar með tryggt.

Spánverjar unnu á endanum riðilinn með fjögurra stiga mun og eru verðskuldaðir sigurvegarar B-riðils. Svíþjóð endar í öðru sæti og fer því í umspil um sæti á HM. Í hinum leik riðilsins gerðu Kósovó og Grikkland 1-1 jafntefli.

Í Portúgal var Serbía í heimsókn, einnig var um að ræða uppgjör toppliða. Renato Sanches kom heimamönnum yfir strax á annarri mínútu leiksins. Dušan Tadić jafnaði metin fyrir gestina eftir rúmlega hálftíma leik og staðan 1-1 í hálfleik.

Þegar leið á síðari hálfleik virtist sem mörkin yrðu ekki fleiri og heimamenn farnir að skipuleggja fagnaðarhöldin. Aleksandar Mitrović er þekktur fyrir að skemma góð veisluhöld og hann tók því upp á að skora sigurmark er venjulegur leiktími var að renna út.

Staðan orðin 2-1 og reyndust það lokatölur. Serbía stal þar með efsta sæti A-riðils og skilur Portúgal eftir í öðru sætinu með sárt ennið. Í hinum leik riðilsins vann Írland 3-0 sigur á Lúxemborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×