Erlent

Beið af­hroð í sveitar­stjórnar­kosningunum og opnar á for­manns­skipti

Atli Ísleifsson skrifar
Kristian Thulesen Dahl tók við formennsku í Danska þjóðarflokknum af Piu Kjærsgaard árið 2012.
Kristian Thulesen Dahl tók við formennsku í Danska þjóðarflokknum af Piu Kjærsgaard árið 2012.

Danski þjóðarflokkurinn beið afhroð í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru í gær og hefur formaður flokksins, Kristian Thulesen Dahl, lagt til að boðað verði til aukalandsþings og nýr formaður kjörinn.

Alls var gengið til kosninga í 98 sveitarfélögum og fimm stjórnsýsluumdæmum (d. region) í gær.

Kosningarnar reyndust einnig Jafnaðarmannaflokki Mette Frederiksen forsætisráðherra erfiðar og er flokkurinn í fyrsta sinn í heila öld ekki stærsti flokkurinn í Kaupmannahöfn, en yfirborgarstjóri höfuðborgarinnar hefur komið úr röðum Jafnaðarmannaflokksins allt frá því að stöðunni var komið á laggirnar árið 1938.

Fylgi Jafnaðarmannaflokksins dróst saman um tíu prósentustig í Kaupmannahöfn sem varð til þess að hinn rauðgræni Enhedslisten tók fram úr og er nú stærsti flokkurinn. Jafnaðarmannaflokkurinn missti álíka fylgi í öðrum stórborgum á borð við Óðinsvéum, Árósum og Álaborg.

Jafnaðarmannaflokkurinn er sem fyrr stærsti flokkurinn á landsvísu og hlaut alls rúmlega 28 prósent atkvæða. Borgaralegi flokkurinn Venstre er næststærstur á landsvísu og hlaut rúmlega 21 prósent atkvæða.

Íhaldsflokkurinn (d. De Konservative) er af mörgum talinn vera sigurvegari sveitarstjórnarkosninganna í gær, en fylgi flokksins jókst um 70 prósent á landsvísu frá síðustu kosningum árið 2017. Nýir borgaralegir, hægri popúlistaflokkur, vann sömuleiðis mikla sigra og náði að tryggja sér alls 64 sæti í sveitarstjórnum landsins. Fór fylgi flokksins úr 0,9 prósent árið 2017 í 3,6 prósent nú.

Fylgi Danska þjóðarflokksins á landsvísu nærri helmingast milli kosninga – fer úr 8,7 prósentum árið 2017 í 4,1 prósent nú. Flokkurinn missir um sextíu prósent þeirra sæta sem flokkurinn var með í sveitarstjórnum landsins og eru nú einungis með 91 sveitarstjórnarfulltrúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×