Lífið

Ásta Björk fór aftur með sigur af hólmi í Vild med dans

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ásta Björk og Jimilian í úrslitaþættinum.
Ásta Björk og Jimilian í úrslitaþættinum. Skjáskot

Dansarinn Ásta Björk Ívarsdóttir gerði sér lítið fyrir og fór með sigur af hólmi í danska danssjónvarpsþættinum Vild med dans. Þetta er í annað sinn sem Ásta Björk fer með sigur af hólmi í keppninni, en hún vann einnig árið 2018.

Þættirnir hafa verið sýndir á TV2 frá árinu 2005 og njóta mikilla vinsælda í Danmörku. Ásta Björk tók þátt í þættinum sem svokallaður fagdansari en hún var pöruð með söngvaranum Jimilian.

Í úrslitaþætti þáttarins að þessu sinni voru þau krýnd sigurvegar en þau hlutu meðal annars fullt hús stiga frá dómurum fyrir atriði kvöldsins, jive og freestyle dans.

Í samtali við TV2 sagði Jimilian að sigurinn hefði komið á honum óvart, ekki síst í ljósi þess að hann og Ásta Björk höfðu ekki verið ofarlega á blaði í veðbönkum.

Atriði Ástu Bjarkar og Jimilian úr úrslitaþættinum.

Í frétt TV2 er því lýst hversu vel Ásta Björk og Jimilian hafi unnið saman og að tengingin á milli þeirra hafi verið mjög góð. Þau hafi æft stíft í hverri einustu viku fyrir hvern þátt.

Ásta Björk birti færslu á Instagram þar sem hún þakkaði kærlega fyrir stuðninginn í þáttunum. Þá þakkaði hún Jimillian fyrir samvinnuna og segist hún vera mjög þakklát fyrir að hafa haft hann sem dansfélaga.

Jimilian tekur í sama streng í frétt TV2 þar sem hann segist hafa eignast vin til lífstíðar í Ástu Björk.


Tengdar fréttir

Ásta Björk og Simon unnu Vild med dans

Ásta Björk Ívarsdóttir og dansfélagi hennar, leikarinn Simon Stenspil, báru sigur úr býtum í þáttunum Vild med dans. Um er að ræða dönsku útgáfuna af þáttunum Allir geta dansað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.