Körfubolti

„Þetta er deild sem er mjög skemmti­legt að spila í“

Ísak Óli Traustason skrifar
Taiwo Badmus átti frábæran leik fyrir Stólana í kvöld.
Taiwo Badmus átti frábæran leik fyrir Stólana í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Taiwo Badmus, leikmaður Tindastóls, spilaði vel í kvöld er Tindastóll vann góðan sigur á ÍR í Subway-deild karla í körfubolta, lokatölur 98-77. Hann átti stóran þátt í sigri heimamanna en Badmus skoraði 29 stig og tók 6 fráköst.

„Við spiluðum vel. Eftir pásuna vildum við auka ákefðina í vörn og sókn, mér fannst við spila á góðum hraða í þessum leik. Það var orka í okkur varnarlega, vorum að trufla sendingar og stela boltum. Sóknarlega vorum við kvikir, vorum að komast inn í kerfin fyrr ásamt því að vera skilvirkari,“ sagði Taiwo og bætti því að við að liðið hefði haft gaman af því að spila hérna í kvöld.

Aðspurður út í slaka þriggja stiga nýtingu liðsins sagðist Taiwo hafa trú á því að þau skot fari að detta og bætti því við að „í millitíðinni höldum við okkur við það sem að við erum góðir í. Við erum skilvirkir í teignum þegar að við spilum hratt á liðin og náum í körfur. Við þurfum bara að halda áfram að bæta okkur.“

Taiwo var ánægður með eigin frammistöðu í leiknum, sérstaklega þar sem Tindastóll vann leikinn.

Taiwo spilaði síðast með Leyma Coruna í næstefstu deild á Spáni, sama liði og Sigtryggur Arnar Björnsson, leikmaður Tindastóls var síðast í.

Varðandi muninn á þeirri deild og Subway-deildinni sagði Taiwo að þetta væri mikill munur.

„Á Spáni er spilaður mun hægari körfubolti, hérna er þetta meira upp og niður,“ sagði Taiwo áður en hann bætti við að þetta væri deild sem væri mjög skemmtilegt að spila í.


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×