Fótbolti

Kimmich enn að jafna sig og sér eftir því að hafa ekki fengið bólusetningu

Sindri Sverrisson skrifar
Joshua Kimmich í sókn gegn Íslandi en Brynjar Ingi Bjarnason til varnar, í leik í undankeppni HM á Laugardalsvelli í haust.
Joshua Kimmich í sókn gegn Íslandi en Brynjar Ingi Bjarnason til varnar, í leik í undankeppni HM á Laugardalsvelli í haust. Getty/Alex Grimm

Þýski landsliðsmaðurinn Joshua Kimmich hefur ekki getað æft fótbolta af fullum krafti vegna minni háttar lungnavandamála og viðurkennir að hann sjái eftir því að hafa ekki fengið bólusetningu gegn Covid-19.

Kimmich, sem er 26 ára, smitaðist af kórónuveirunni í síðasta mánuði og þessi frábæri miðjumaður Bayern München mun ekki spila fótbolta að nýju fyrr en á næsta ári.

Í viðtali við þýsku sjónvarpsstöðina ZDF í gær var hann spurður hvers vegna hann hefði ekki verið búinn að láta bólusetja sig:

„Það var erfitt fyrir mig að eiga við ótta minn og áhyggjur, þess vegna var ég svona lengi að ákveða mig,“ sagði Kimmich sem hefur nú ákveðið að fá bólusetningu.

Kimmich segir að sér líði ágætlega núna en að hann geti þó ekki enn æft eins og hann kjósi, vegna „minni háttar vökvasöfnunar“ í lungum.

Bettina Stark-Watzinger, mennta- og vísindaráðherra Þýskalands, fagnaði ákvörðun Kimmich um að fá bólusetningu:

„Sem atvinnumaður og landsliðsmaður þá er hann fyrirmynd fyrir marga. Frekari bólusetningar eru leiðin út úr faraldrinum,“ skrifaði ráðherrann á Twitter.

Kimmich fór fyrst í einangrun snemma í nóvember eftir að hafa umgengist smitaðan einstakling. Í kjölfarið greindist hann með smit og hefur því misst af síðustu leikjum Bayern.

Bayern á eftir leiki við Mainz, Stuttgart og Wolfsburg áður en við tekur vetrarfrí í Þýskalandi.

„Ég þarf að vera þolinmóður aðeins lengur. Ég horfi á síðustu þrjá leikina úr sófanum og síðan sækjum við fram saman í janúar,“ sagði Kimmich í færslu á Instagram í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×