Fótbolti

Conte til­búinn að leyfa Dele Alli að fara

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dele Alli mun að öllum líkindum róa á önnur mið í janúar.
Dele Alli mun að öllum líkindum róa á önnur mið í janúar. Martin Rose/Getty Images

Það virðist sem Antonio Conte sé sömu skoðunar og José Mourinho þegar kemur að Dele Alli, sóknarþenkjandi miðjumanni Tottenham Hotspur. Conte hefur ákveðið að leyfa Dele að fara frá félaginu í janúar, skiptir litlu máli hvort um sé að ræða lán eða sölu.

Dele Alli fékk fá tækifæri er Mourinho þjálfaði Tottenham en fór í gegnum hálfgerða endurnýjun lífdaga þegar Nuno Espirito Santo tók við stjórn liðsins í sumar. Nuno entist hins vegar ekki lengi í starfi og Conte virðist ekki hafa hlutverk fyrir Dele inn á vellinum.

Daniel Levy, formaður félagsins, leyfði Dele ekki að fara til París Saint-Germain í október 2020 né janúar á þessu ári en virðist nú hafa skipt um skoðun. Talið er nær öruggt að Dele fari í janúar, þá líklegast á láni með möguleika á sölu næsta sumar. Frá þessu er greint á vef The Athletic.

Dele Alli er samningsbundinn til 2024 og sem stendur er ekki talið að mörg félög séu tilbúin að borga uppsett verð. Sérstaklega í ljósi þess að leikmaðurinn er í engu hlutverki hjá félaginu. 

Síðan Conte tók við hefur hann tekið þátt í einum leik í ensku úrvalsdeildinni og eini leikurinn sem hann hefur byrjað var í neyðarlegu tapi gegn Mura í Sambandsdeild Evrópu.

Það má reikna með að fjöldi liða séu tilbúin að fá Dele Alli á láni í janúar og sjá hvort gæðin sem hann sýndi undir stjórn Mauricio Pochettino séu enn til staðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×