Fótbolti

Tveir Ís­lendingar í byrjunar­liðinu í bikar­sigri Fen­eyjar­liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Sigurðsson fékk að byrja sinn fyrsta leik með Venezia í dag.
Arnór Sigurðsson fékk að byrja sinn fyrsta leik með Venezia í dag. Getty/Maurizio Lagana

Íslendingaliðið Venezia tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum ítalska bikarsins eftir 3-1 heimasigur á b-deildarliði Ternana.

Arnór Sigurðsson og Bjarki Steinn Bjarkason voru báðir í byrjunarliði Venezia í leiknum.

Bjarki Steinn spilaði fyrsta klukkutímann og Arnór var tekinn af velli á 76. mínútu. Arnór náði sér í gula spjaldið snemma leiks.

Þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur Arnórs síðan að kom á láni frá CSKa Moskvu og fyrsti leikur Bjarka í deild eða bikar á tímabilinu.

Slóveninn Domen Crnigoj, sem kom inn á fyrir Bjarka, skoraði kom liðinu í 2-1 sex mínútum eftir að hann kom inn á völlinn.

Fyrsta markið skoraði Belginn Daan Heymans á 49. mínútu og kom þá Venezia í 1-0. Gestirnir hjá Ternana jöfnuðu metin aðeins fjórum mínútum síðar.

Francesco Forte skoraði síðan þriðja mark Feneyjarliðsins níu mínútum fyrir leikslok.

Leikurinn fór fram á Stadio Pier Luigi Penzo í Feneyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×