Innlent

Engin merki um byrlun

Eiður Þór Árnason skrifar
Málin hafa verið til rannsóknar hjá lögreglunni á Akureyri.
Málin hafa verið til rannsóknar hjá lögreglunni á Akureyri. Vísir/Vilhelm

Engin merki voru um deyfilyf eða fíkniefni í sýnum sem tekin voru vegna gruns um að þremur einstaklingum hafi verið byrlað á skemmtistöðum eða heimahúsum á Akureyri í lok október.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra sem hefur haft málin þrjú til rannsóknar. Blóðsýni voru tekin úr þeim aðilum sem tilkynntu grun um byrlun.

„Í öllum tilvikum voru sýnin tekin fljótlega eftir að grunur vaknaði um brot og strax eftir að afskipti lögreglu hófust.“

Við rannsókn á sýnunum kom í ljós að einstaklingarnir höfðu töluvert áfengismagn í blóðinu, að sögn lögreglu en engin merki voru um deyfilyf eða fíkniefni.

Lögregla hafði áður haft afskipti af fjórða aðilanum sem taldi að sér hefði verið byrlað. Að mati læknis var ekki talið að um byrlun væri að ræða í því tilviki og voru því ekki tekin blóðsýni.

Fannst nær rænulaus fyrir utan skemmtistað

Greint var frá því í lok október að grunur léki á að tveimur konum og einum karlmanni hafi verið byrluð ólyfjan á Akureyri. Önnur kvennanna fannst nær rænulaus fyrir utan skemmtistað í bænum en vinir hinna tveggja komu þeim á slysadeild. 

„Það fór lögreglumaður á bráðamóttökuna en við náðum ekkert að ræða við viðkomandi einstaklinga til þess að spyrja út í ferðir þeirra og fleira,” sagði Árni Páll Jóhannesson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra þá í samtali við fréttastofu.

Bætti hann við að almennt hafi ekki verið mikið um tilkynningar um byrlanir á Akureyri. Hins vegar hafi átt sér stað ákveðin vitundarvakning og fólk því hugsanlega meira á varðbergi. Jákvætt væri að fólk fylgdist vel með.


Tengdar fréttir

Grunur um að þremur hafi verið byrlað

Grunur leikur á að þremur hafi verið byrluð ólyfjan á Akureyri í nótt, tveimur konum og einum karlmanni. Önnur kvennanna fannst nær rænulaus fyrir utan skemmtistað í bænum en vinir hinna tveggja komu þeim á slysadeild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×