Að minnsta kosti þrír alþingismenn greindust með kórónuveiruna í gær og fleiri gætu greinst eftir sýnatökur í dag. Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Guðbrandur Einarsson þingmenn Viðreisnar greindu öll frá því í gær að þau væru smituð af veirunni.
Guðbrandur var mættur til nefndarstarfa á þinginu í gærmorgun þegar hann var látinn vita að hann hefði verið útsettur. Hann segist nokkuð brattur, þrátt fyrir hita, beinverki og kvef.
„Röddin er ekki upp á sitt besta. Ég myndi ekki vilja fara að syngja eitthvað núna,“ segir Guðbrandur, sem fékk nýlega örvunarskammt af bóluefni eins og svo margir Íslendingar síðustu vikur.
„Ég held þetta sé að hafa veruleg áhrif á Viðreisn, án þess að ég vilji tjá mig um veikindi hvers og eins. En við erum öll saman í litlu herbergi og það er ekki hægt að komast hjá því að smitast ef einhver er smitaður á annað borð,“ segir Guðbrandur, og vísar þar til þingflokksherbergis Viðreisnar í Alþingishúsinu, sem er í minni kantinum.
En það er óneitanlega sárt að missa af jólunum með fjölskyldunni?
„Jú, vissulega. Það er eitthvað sem ég hef ekki upplifað síðan ég var smástrákur. En það þarf bara að vinna út úr því að vera einn á jólunum. Og það er bara ágætt að skilja hvernig það er að vera einn á jólunum. Það eru margir þannig,“ segir Guðbrandur.