Fótbolti

Lið Alfreðs kaupir bandarískt undrabarn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ricardo Pepi (nr. 9) þykir gríðarlega mikið efni.
Ricardo Pepi (nr. 9) þykir gríðarlega mikið efni. epa/MARK LYONS

Augsburg, lið Alfreðs Finnbogasonar, hefur fest kaup á bandaríska framherjanum Ricardo Pepi frá Dallas.

Þrátt fyrir að vera aðeins átján ára hefur Pepi leikið 57 leiki fyrir Dallas og skorað sextán mörk. Þá hefur hann skorað þrjú mörk í sjö leikjum fyrir bandaríska landsliðið.

Pepi skrifaði undir fjögurra ára samning við Augsburg með möguleika á eins árs framlengingu. Talið er að þýska félagið hafi greitt Dallas tæplega fimmtán milljónir punda fyrir Pepi.

Augsburg er í harðri fallbaráttu í þýsku úrvalsdeildinni og veitir ekki af liðsstyrk. Augsburg er í 15. sæti af átján liðum með átján stig eftir sautján umferðir.

Alfreð hefur aðeins leikið þrjá deildarleiki fyrir Augsburg á tímabilinu. Hann skoraði eitt mark og lagði upp annað í sigri á Stuttgart í lok október.

Alfreð hefur leikið með Augsburg síðan 2016. Samningur hans við félagið rennur út í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×