Í september síðastliðnum var það tilkynnt að Harmageddon myndi hætta á útvarpsstöðinni X977 eftir fjórtán ára göngu. Í dag kom það síðan í ljós að þættirnir fá nýtt heimili hjá Tal og breytt hlutverk sem hlaðvarp.
Harmageddon og þrír aðrir þættir
Þættirnir verða í áskrift sem kostar 1.190 krónur á mánuði. Fleiri þættir munu birtast frá þeim félögum Frosta og Mána sem áskrifendur geta hlustað á.
Um er að ræða tvo Harmageddon þætti í viku. Einnig þættina Enn einn fótboltaþátturinn, þar sem Máni ræðir um fótbolta, Spjallað við góða fólkið þar sem „farið er yfir hina hliðina á fólkinu sem við köllum góða fólkið“ og Ósýnilega fólkið, þar sem Frosti ræðir við fólk sem glímir við margþættar áskoranir eins og fíknivanda og heimilisleysi.
„Kæru vinir. Okkur sjálfum til mikillar gleði höfum við ákveðið að snúa aftur með Harmageddon, að þessu sinni í formi hlaðvarps,“ skrifar spenntur Frosti í nýrri færslu á Instagram.
Máni skrifar einfaldlega:
„Það er engin ástæða fyrir þig að leggjast í einhverja depurð yfir því hvað þetta er ógeðslegt samfélag. Við komum aftur í janúar.“
Nánar má lesa um málið á vef Tal.