Með nýjum reglum um samkomutakmarkanir, sem tóku gildi á miðnætti, er óheimilt að halda stærri viðburði og almennt er miðað við tíu manna hámark. Áður var leyfilegt að halda 200 manna viðburði með notkun hraðprófa og fyrr í desember var leyfilegt að hafa allt að 500 manns á slíkum viðburðum.
Öryggismiðstöðin er eitt þeirra fyrirtækja sem heldur út sérstökum hraðprófsstöðvum en Ómar Brynjólfsson, framkvæmdastjóri AIVÖR sem er sérstakt svið hjá Öryggismiðstöðinni, segir að einkafyrirtækin sitji uppi með skellinn ef mikil fækkun verður í kúnnahópi þeirra, enda þurfi að borga starfsfólki laun og greiða leigu.
„Við fáum greitt fyrir tekin sýni þannig að ef það mætir enginn þá er það náttúrulega ekki nein greiðsla fyrir. Þannig að við erum bara í ágætismálum, við segjum það,“ segir Ómar og bætir við að enn sé of snemmt að segja til um hvort og þá hvenær samkomutakmarkanirnar munu koma til með að hafa.
Bransinn ekki sérstaklega stöðugur
Hann segir að áhrifin hafi í raun verið komin fram enda hafi lítið verið af skipulögðum viðburðum í janúar. Mikið hafi verið að gera yfir hátíðarnar, þegar jólatónleikar og aðrir viðburðir voru tíðir.
„Þær [samkomutakmarkanirnar] tóku náttúrulega gildi í gær. Við sáum allavega ekki neina fækkun í gær í sýnatökum og ég heyri það á mínu fólki að fólk er mikið að koma ef það er að fara að hitta vini eða ættingja, eða á leið í lítið matarboð. Eða náttúrulega að fara erlendis, þarf það vottorð,“ segir Ómar.
Ómar segir að starfsemin hafi eðli málsins samkvæmt sveiflast í takti við gildandi takmarkanir á hverjum tíma. Bransinn sé ekki sérstaklega stöðugur.
„Það er rosalega snemmt að segja til um hvaða áhrif þetta hefur eða hvernig í rauninni þetta hefur áhrif á uppbyggingu á okkar kúnnahópi,“segir Ómar Brynjólfsson, framkvæmdastjóri AIVÖR hjá Öryggismiðstöðinni.