„Þetta er ólýsanlegt verð ég að segja. Ég er náttúrulega fyrst og síðast alveg afskaplega glaður, en líka svo stoltur,“ sagði Guðmundur í leikslok.
„Ég er búinn að tala um það frá 2018 að við séum að fara að byggja hérna upp nýtt lið og að það væru að fara af stað kynslóðaskipti. Ég man það að á fyrsta blaðamannafundinum þá hlógu menn að mér. Þeir sögðu: „Já er Gummi að fara að byggja upp.“
„Við erum búnir að gera þetta skref fyrir skref og fara í gegnum stórmót eftir stórmót og það hefur ekki alltaf verið eins og best verður á kosið. En við erum samt búnir að sjá framfrrir hjá liðinu. Núna er þetta þannig að okkur líður vel með það sem við erum að gera, okkur líður vel með leikplanið okkar í vörn og sókn, við erum með lausnir.“
„Það kemur alltaf einhver sem á góða kafla og reddar hlutum fyrir okkur. Núna erum við að spila á móti gríðarlega líkamlega sterku liði sem er er sterkara en við, en við náum að þétta raðirnar í vörninni í síðari hálfleik og planið var að loka á línuna og láta þá skjóta fyrir utan. Það gekk eiginlega fullkomlega upp. Jú, við gerðum mistök inn á milli og allt það, en í sjálfu sér er ég rosalega ánægður með að við brugðumst við og fengum svör. Við vorum að klára Ungverja á heimavelli fyrir framan 20 þúsund áhorfendur og rúmlega það.“
„Ég verð bara að segja það að ég er gríðarlega ánægðu með það hvernig strákarnir leystu þetta. Það var alveg magnað.“
Guðmundur var eins og áður segir ángður með varnarleik liðsins í síðari hálfleik, en sóknarleikur liðsins hefur einnig verið framúrskarandi á mótinu til þessa. Hann ítrekar það hversu stoltur hann er af liðinu fyrir að hafa haldið út í leiknum í kvöld, og þá sérstaklega við þær aðstæður sem voru í höllinni.
„Þetta voru brjálæðislega erfiðar aðstæður. Fólk kannski heyrir hávaðan ekki almennilega heima í stofu, en með þetta allt á móti sér þannig lagað. Sóknarleikurinn er með því betra, ég get bara sagt það. Hann hefur oft verið góður og maður má ekki fara fram úr sér, en við erum búnir að spila stórkostlegan handbolta í þessum þremur leikjum.“
„Sóknarleikurinn í dag var algjörlega stórkostlegur. Það er ekkert auðvelt að brjóta þetta á bak aftur. Þetta eru bara heljarmenni þarna inni í miðjunni og við þurfum bara að vera ótrúlega klókir og spila okkur út úr stöðum, einangra þá, gera árásir á þá og halda svo boltanum í leik eða fara í gegn.“
„Þetta er í raun bara það sem við erum búnir að vera að vinna með. Við erum með áherslubreytingar og ég er búinn að breyta miklu varðandi sóknarleik liðsins, ég get bara sagt það núna. Við erum að uppskera af því og svo erum við með alla menn heila sem voru ekki í fyrra og það bara breytir mjög miklu fyrir okkur. Við erum að vaxa sem lið og þetta er bara svona ferli.“
„Mér finnst stundum eins og það hafi vantað þolinmæði hjá sumum, en ég vissi alltaf sjálfur hvað við vorum að fara að gera. Þetta undirstrikar það sem ég er að reyna að segja.“
Guðmundur var að lokum spurður að því hversu ljúft það væri að vinna Ungverja eftir súr töp seinustu ár.
„Þetta er stórkostlegt,“ sagðu Guðmundur hlægjandi. „Þetta er algjörlega frábært að upplifa þetta. Ég er búinn að upplifa svo margt skrítið á móti þessari stórkostlegu íþróttaþjóð, og því miður hefur það oft farið illa. Núna var þetta bara eins og maður segir gjörsamlega geggjað að klára þetta hérna á þeirra heimavelli fyrir framan 20 þúsund áhorfendur í stórkostlegri íþróttahöll. Það er eiginlega ekki hægt að hafa þetta betra,“ sagði Guðmundur að lokum.