Viðskipti erlent

Norsk stjórnvöld gefa út 53 ný olíuleitarleyfi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Johan Sverdrup-svæðinu í Norðursjó. Þetta er eitt nýjasta olíuvinnslusvæði Norðmanna.
Frá Johan Sverdrup-svæðinu í Norðursjó. Þetta er eitt nýjasta olíuvinnslusvæði Norðmanna. Vísir/EPA

Norsk stjórnvöld hafa úthlutað 53 nýjum sérleyfum til leitar og vinnslu olíu á landgrunni Noregs. Á sama tíma er skýrt frá því að aldrei í sögunni hafi tekjur Norðmanna af olíu- og gasvinnslu verið eins miklar og á nýliðnu ári.

Olíumálaráðherrann segir frekari olíuleit skipta sköpum fyrir efnahag landsins og þróun olíuiðnaðarins. Greenpeace í Noregi segir það hins vegar brjálæði að í loftslagskreppu gefi ríkisstjórn Jonas Gahr Støre út ný olíuleyfi.

Sérleyfin 53 fela í sér bæði einkarétt til leitar á úthlutuðum svæðum og síðar borana og vinnslu. Alls fengu 28 olíufélög leyfi, þar af fengu 15 félög leyfi á fleiri en einu svæði. Flest leyfanna, 28 talsins, eru í Norðursjó, 20 leyfi eru Noregshafi og 5 í Barentshafi, það nyrsta á 73 breiddargráðu.

„Olíuiðnaðurinn leggur til miklar tekjur, verðmætasköpun og störf um allt land. Því er ánægjulegt í dag að geta boðið 53 ný vinnsluleyfi á fyrirfram skilgreindum svæðum. Frekari leitarstarfsemi og nýjar uppgötvanir skipta sköpum þegar við ætlum að þróa enn frekar norskan olíuiðnað til hagsbóta fyrir allt landið,“ segir olíu- og orkumálaráðherrann Marte Mjøs Persen í yfirlýsingu þegar leyfisveitingin var kynnt fyrir helgi.

„Ríkisstjórn Støre sýnir sitt rétta andlit með því að setja kröfu olíuiðnaðarins um ný rannsóknarleyfi ofar þörfinni á grænum orkuskiptum,“segir Frode Pleym, leiðtogi Greenpeace í Noregi, í yfirlýsingu og lýsir sérstökum áhyggjum yfir að leyfi séu gefin út til leitar við ísjaðarinn í Barentshafi.

Frá mótmælaaðgerðum Greenpeace í Barentshafi árið 2014.Mynd/Greenpeace.

Hann segir nýju leyfin klárt brot á loftslagsloforðinu sem Støre forsætisráðherra og afi hafi gefið barnabörnunum í kosningabaráttunni. Í stað þess að taka þátt í baráttunni gegn loftslagsvánni haldi Støre áfram blindri fjárfestingu í meiri olíu. Það sé stærsta ógnin við norsk störf.

Olíustofnun Noregs skýrði frá því á dögunum að nýliðið ár hefði reynst það tekjuhæsta í meira en hálfrar aldar sögu norska olíuævintýrisins.

„Mikil framleiðsla á olíu og gasi frá alls 94 svæðum, mikil eftirspurn og hátt hráefnisverð gera það að verkum að útflutningstekjur ríkisins af olíu eru í sögulegu hámarki. Mikið af þessu má rekja til hás olíuverðs,“ segir Olíustofnunin.

„Norska olíustofnunin gerir ráð fyrir að áfram verði stöðug og mikil framleiðsla á næstu árum. Margar nýjar uppgötvanir og sú staðreynd að fjöldi nýrra svæða verður byggður upp á næstu árum þýðir að gert er ráð fyrir að framleiðslan aukist nokkuð fram til ársins 2024,“ segir stofnunin.

Hér sjá frétt Stöðvar 2 af því þegar Johan Sverdrup, eitt verðmætasta olíuvinnslusvæði í sögu Noregs, var formlega tekið í notkun fyrir tveimur árum:


Tengdar fréttir

Fimmtíu ár frá upphafi norska olíuævintýrisins

Það var á Þorláksmessu árið 1969 sem ráðamenn Phillips-olíufélagsins hringdu í norska iðnaðarráðuneytið og tilkynntu um að þeir hefðu fundið olíulind á Ekofisk-svæðinu í Norðursjó.

Stöðva stopula leit að olíu í lögsögu Íslands

Hálfrar aldar sögu olíuleitar við Ísland virðist lokið; leitar sem reyndist bæði stopul og árangurslítil. Í nýjum stjórnarsáttmála er því lýst yfir að fleiri leyfi til olíuleitar verði ekki gefin út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×