Erlent

Danski þjóðar­flokkurinn kominn með nýjan for­mann

Atli Ísleifsson skrifar
Morten Messerschmidt sat lengi á Evrópuþinginu en var kjörinn á danska þingið árið 2019.
Morten Messerschmidt sat lengi á Evrópuþinginu en var kjörinn á danska þingið árið 2019. EPA

Danski þingmaðurinn Morten Messerschmidt var í gær kjörinn formaður Danska þjóðarflokksins (d. Dansk Folkeparti). Hann tekur við stöðunni af Kristian Thulesen Dahl sem hætti í kjölfar bágrar niðurstöðu flokksins í sveitarstjórnarkosningunum í nóvember.

Kjör Messerschmidts kom ekki á óvart en hann hlaut í fyrstu umferð formannskjörsins um sextíu prósent atkvæði þeirra 825 flokksþingsfulltrúa sem höfðu atkvæðisrétt. Ekki þurfti því fleiri umferðir og var hann lýstur nýr formaður.

Messerschmidt segist ætla að leggja áherslu á að skapa einingu innan flokksins, en flokkurinn hefur að undanförnu ítrekað ratað í fréttir vegna sundrungar og þá hafa einstaka kjörnir fulltrúar flokksins verið harðlega gagnrýndir vegna framgöngu sinnar. 

Messerschmidt hlaut 499 atkvæði í atkvæðagreiðslunni, Martin Henriksen 219 atkvæði og Merete Dea Larsen 104.

Hinn 41 árs Messerschmidt var Evrópuþingmaður fyrir Danska þjóðarflokkinn, sem hefur lengi barist fyrir harðari innflytjendalöggjöf, á árunum 2009 til 2019 en var svo kjörinn á danska þingið árið 2019. Hann sat einnig á danska þinginu á árunum 2005 til 2009.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×