Danmörk hefur verið besta lið mótsins til þessa og unnið alla sína leiki sem þýðir að liðið hefur þegar tryggt sér sæti í undanúrslitum á EM. Spurningin er hvort að Frakkland eða Ísland fylgi liðinu upp úr milliriðli 1.
Það ræðst á morgun. Ísland þarf að vinna Svartfjallaland og treysta á að Frakkland tapi svo gegn Danmörku um kvöldið. Ef að Ísland vinnur sinn leik hafa Danir því mikið um það að segja hvort að Íslendingar eða Frakkar fylgi þeim áfram en Nikolaj Jacobsen, þjálfari Dana, er lítið að velta því fyrir sér.
„Mun alveg örugglega hvíla nokkra leikmenn“
„Við reynum að mæta og spila góðan leik á miðvikudaginn. En stærsti fókusinn núna er á að vera með ferska leikmenn á föstudaginn [í undanúrslitunum]. Það er mikilvægasti leikur okkar núna,“ sagði Jacobsen við Jyllands-Posten.
„Ég mun alveg örugglega hvíla nokkra leikmenn og við verðum að sjá til hverjir þurfa á hvíld að halda og hverjir ekki,“ sagði Jacobsen.
Þjálfarinn hefur fyrr í mótinu beitt sömu aðferðum því hann hvíldi lykilmenn í síðasta leik riðlakeppninnar, gegn Norður-Makedóníu, þegar Danmörk hafði þegar tryggt sér sigur í sínum riðli.
Það er huggun harmi gegn að Danir eiga marga góða leikmenn og Mathias Gidsel, sem lék Íslendinga grátt, lofar því að enginn ætli að láta Frakka valta yfir sig:
„Við verðum að sjá til hvort að ég spili. En það er alveg öruggt að Danmörk fer aldrei inn á völlinn til þess að tapa handboltaleik. Hvort sem að það verður ég eða einhverjir aðrir sem að spila þá verðum við með mjög gott lið sem Frakkar geta ekkert vaðið yfir,“ sagði Gidsel.