Erlent

Fórnar­lamb flugu­mannsins sem kom til Ís­lands fær háar bætur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögreglan í London fær á baukinn.
Lögreglan í London fær á baukinn. EPA-EFE/NEIL HALL

Kona sem breski flugumaðurinn Mark Kennedy braut gróflega fær háar bætur eftir að dómstóll í Bretlandi komst að þeirri niðurstöðu að lögreglan í London hafi brotið á mannréttindum hennar.

Dómarar við bresku dómsmálastofnunina komust að niðurstöðunni í október en upphæð skaðabóta var ákvörðuð í dag. Flugumaðurinn Kennedy, sem var útsendari lögreglu, átti í ástarsambandi við hana í upphafi aldarinnar í þeim tilgangi að afla upplýsingum til lögreglu um hana og þá hópa sem hún tengdist.

Konan sem um ræðir, Kate Wilson, var með Kennedy í hátt í tvö ár og lauk sambandi þeirra árið 2005. Hún vissi ekki að Kennedy, sem gekk þá undir nafninu Mark Stone, væri í raun útsendari lögreglu sem var í sjö ára verkefni sem sneri að því að njósna um umhverfissinna og aðra pólitíska hópa víða um heim.

Wilson mun fá 230 þúsund pund í bætur, um fjörutíu milljónir íslenskra króna. Dómstólinn segir að málið hafi varpað ljósi á alvarlegar og ámælisverðar brotalamir.

Kom til Íslands og mótmælti við Kárahnjúkavirkjun

Mál Kennedy vakti töluverða athygli árið 2010 þegar aðgerðarsinnum tókst að koma upp um hann og verkefnið. Málið teygði meðal annars anga sína til Íslands þar sem Kennedy kom hingað sumarið 2005 og var meðal mótmælenda í hópnum Saving Iceland, sem mótmæltu meðal annars við Kárahnjúkavirkjun.

Kennedy er sagður hafa njósnað um mótmælendurna en í skýrslu sem ríkislögreglustjóri skilaði þáverandi ráðherra dómsmála árið 2011 kemur fram að ekki hafi komið fram upplýsingar í athugun lögreglu sem gera kleift að skera úr um hvort þessi flugumaður bresku lögreglunnar hafi verið hér á landi í samvinnu eða með vitund lögreglunnar árið 2005, eins og það var orðað í skýrslunni.


Tengdar fréttir

Lög­regla braut gegn konu sem var blekkt af flugu­manninum sem kom til Ís­lands

Dómarar við bresku dómsmálastofnunina IPT hafa komist að þeirri niðurstöðu að lögreglan í Lundúnum hafi brotið gróflega á mannréttindum konu sem flugumaðurinn Mark Kennedy átti í ástarsambandi við með þeim tilgangi að afla upplýsingum til lögreglu um hana og þá hópa sem hún tengdist. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×