Erlent

Níu ára drengur fórst í Eng­landi vegna veður­ofsa

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Veðrið hefur orðið til verulegra samgöngutruflana og víða er rafmagnslaust.
Veðrið hefur orðið til verulegra samgöngutruflana og víða er rafmagnslaust. EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA

Níu ára gamall drengur og sextug kona létust þegar tré féll á þau vegna stormsins Malik, sem ríður yfir Bretlandseyjar. Þúsundir heimila hafa verið rafmagnslaus í Skotlandi og Englandi vegna stormsins.

Drengurinn lést í Winnothdale í Englandi og konan í Aberdeen í Skotlandi. Appelsínugul veðurviðvörun hefur verið í gildi á austurströnd Skotlands og Englands og gul viðvörun í öðrum hlutum Skotlands, norðausturhluta Norður-Írlands, og norðurhluta Englands.

Ekki skánar ástandið þegar stormurinn Corrie ríður yfir Skotland í dag. 

Malik gengur sömuleiðis yfir hluta Þýskalands, Danmerkur, Svíþjóð og Noreg í dag. Lögreglan í Bergen í Noregi hefur hvatt íbúa til að halda sig innandyra meðan veðrið gengur yfir og það sama er uppi á teningnum í Danmörku. 

Veðrið olli sömuleiðis miklum vandræðum í Svíþjóð þar sem rafmagn rofnaði víða og samgöngutruflanir urðu. Í norðausturhluta Þýskalands hefur varað við mikilli úrkomu og er gert ráð fyrir að vatnshæð í stærstu ánum muni vera allt að þremur metrum meiri en í venjulegu flóði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×