Enski boltinn

Greenwood mun ekki snúa aftur til æfinga né leikja þangað til annað verður til­kynnt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mason Greenwood í sínum eina A-landsleik fyrir England.
Mason Greenwood í sínum eina A-landsleik fyrir England. Haflidi Breidfjord/Getty Images

Manchester United hefur gefið frá sér aðra yfirlýsingu vegna máls Mason Greenwood. Leikmaðurinn mun hvorki fá að æfa né spila með liðinu þangað til annað kemur í ljós. Þá hefur íþróttarisinn Nike einnig tjáð sig um málið.

Fyrr í dag greindi Vísir frá því að Harriett Robson – kærasta enska knattspyrnumannsins Mason Greenwood – hefði ásakað hann um heimilisofbeldi á Instagram-síðu sinni. Birti hún myndir og hljóðbrot sem sýndu fram á að Greenwood hefði gengið í skrokk á henni og þvingað hana til samræðis.

Myndirnar og hljóðbrotið eru nú horfnar sem og nær allar myndirnar á Instagram-síðu hennar.

Eftir atvikið tilkynnti Man United að félagið vissi af málinu en ætlaði ekki að tjá sig fyrr en ljóst væri hvað hefði átt sér stað. Nú hefur félagið hins vegar birt yfirlýsingu þess efnis að leikmaðurinn muni ekki fá að æfa né spila með liðinu þangað til annað kemur í ljós.

Þá hefur íþróttarisinn Nike tjáð sig um málið en leikmaðurinn er einnig samningsbundinn vörumerkinu. Talsmaður þess sagði að Nike hefði „miklar áhyggjur vegna ásakananna og að það myndi fylgjast vel með gangi mála.“

Greenwood er 20 ára gamall og uppalinn hjá Man United. Hann hefur spilað 130 leiki fyrir félagið og skorað 36 mörk. Næsti leikur liðsins er á föstudaginn kemur gegn Middlesbrough í FA-bikarnum.

Hann á að baki einn A-landsleik fyrir England en sá kom á Laugardalsvelli í 1-0 sigri gegn Íslandi. Eftir leikinn lentu hann og Phil Foden í vandræðum eftir að hafa brotið Covid-regluverk enska landsliðsins er þeir buðu íslenskum stelpum upp á hótelherbergi sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×