Handbolti

Dan­mörk nældi í brons

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Danmörk lagði Frakkland í leiknum um bronsið.
Danmörk lagði Frakkland í leiknum um bronsið. Kolektiff Images/Getty Images

Danmörk vann til bronsverðlauna á EM í handbolta með því að hefna fyrir tapið gegn Frakklandi í lokaleik milliriðils sem þýddi að Ísland komst ekki í undanúrslit. Lokatölur eftir framlengdan leik 35-32.

Leikur dagsins var hnífjafn frá upphafi til enda. Frakkland hafði vissulega eins marks forystu í hálfleik, 14-13, en danska liðið gafst ekki upp og var einu marki yfir þegar skammt var eftir af leiknum.

Frakkar skoruðu síðasta mark venjulegs leiktíma þegar hálf mínúta lifði leiks en þá jöfnuðu þeir metin í 29-29. Dönum tókst ekki að knýja fram sigur og því þurfti að framlengja.

Í framlengingu reyndust Danir sterkari aðilinn en þeir skoruðu sex mörk gegn aðeins þremur hjá franska liðinu og unnu leikinn því 35-32. Var þetta fyrsti sigur Dana á Frakklandi í sögu Evrópumótsins í handbolta.

Jacob Holm var magnaður í liði Danmerkur en hann skoraði 10 mörk í leik dagsins. Hjá Frakklandi skoraði Kentin Mahé 8 mörk ásamt því að leggja upp 7 til viðbótar. Það dugði því miður ekki til í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×