Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Valur 30-22 | Fimmti sigur ÍBV í röð

Einar Kárason skrifar
Marija Jovanovic skoraði tíu mörk gegn Val.
Marija Jovanovic skoraði tíu mörk gegn Val. Vísir/Hulda Margrét

ÍBV vann enn einn leikinn á nýju ári þegar þær skelltu Valskonum í Vestmannaeyjum, 30-22, en liðið hefur verið á fljúgandi siglingu undanfarið. Fimm sigrar úr fimm leikjum árið 2022.

Gestirnir úr höfuðborginni byrjuðu leikinn vel og eftir um tíu mínútna leik var staðan 2-4. Eyjaliðið setti þá í fluggír og skoruðu næstu átta mörk leiksins og komnar með sex marka forskot eftir tuttugu mínútna leik. Komst þá meira jafnvægi í leikinn og skiptust liðin á að skora og skora ekki það sem eftir lifði hálfleiks en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 15-9.

Heimastúlkur héldu uppteknum hætti í byrjun síðari hálfleiks og voru fljótt komnar með níu marka forskot. Valur náði þá að skora þrjú mörk í röð en þrátt fyrir það virtust þær aldrei líklegar til að koma til baka gegn vel skipulögðu liði ÍBV. Léku þær á alls oddi og varð munurinn á liðunum mestur 10 mörk þegar rúmar fimm mínútur eftir lifðu leiks. 

Þrátt fyrir að úrslitin væru ráðin gáfu leikmenn beggja liða ekkert eftir á lokamínútunum, en þegar bjallan glumdi í síðasta sinn var staðan 30-22 og sannfærandi sigur ÍBV í höfn.

Af hverju vann ÍBV?

Leikgleðin skín úr hverju andliti og allir leikmenn liðsins koma með eitthvað að borði. Valskonur fóru illa með mörg góð færi í fyrri hálfleik og náði ÍBV góðu forskoti sem þær rauðklæddu náðu ekki að vinna niður. Eyjaliðið er á fljúgandi siglingu og eru fullar sjálfstrausts.

Hverjar stóðu upp úr?

Marija Jovanovic átti glimrandi fínan leik í liði ÍBV en hún var markahæst allra með tíu mörk. Henni næst var Elísa Elíasdóttir með sex mörk skoruð. Vörn liðsins fær stórt hrós fyrir frammistöðu sína.

Í liði gestanna voru Mariam Eradze og Lovísa Thompson atkvæðamestar með sjö og fimm mörk.

Hvað gekk illa?

Þessi tíu mínútna kafli Valsstúlkna í fyrri hálfleik lék þær grátt. Skutu í stöng og slá úr góðum færum og brenndu til að mynda af fyrstu tveimur vítaköstum sínum í leiknum.

Hvað gerist næst?

ÍBV fer norður á Akureyri og leikur þar við KA/Þór á laugardaginn næstkomandi en samdægurs fer Valur í heimsókn til Aftureldingar í Mosfellsbæinn.

Ágúst Þór: Frammistaðan á að geta verið betri en þetta

Ágúst Þór.vísir

,,Við náum okkur engan veginn á strik fyrir utan fyrstu tíu til tólf mínúturnar," sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, eftir leik. ,,Við vorum undir í raun og veru öllu á vellinum. ÍBV átti sigurinn skilið."

,,Við gerðum okkur sekar um stór mistök, tæknileg mistök, bæði varnarlega og ekki síður sóknarlega. Við fórum illa með sóknirnar okkar og þær refsuðu með hraðaupphlaupum. Spilamennska og frammistaða okkar var ekki nægilega góð til að vinna eins sterkt lið og ÍBV."

Færanýting ábótavön

,,Dauðafæri, góð skotfæri eru stór þáttur af handboltaleik. Það er ekkert hægt að afsaka sig með því að hafa klikkað á einhverjum færum. Við spilum langt frá því nægilega vel. Tek ekkert frá ÍBV en þær hafa verið að spila virkilega vel í deilinni og búnar að vinna hvern leikinn á fætum öðrum. Þær líta gríðarlega vel út og eru vel mannaðar. Það vantar aðeins í liðið hjá okkur vegna covid og meiðsla en það er engin afsökun. Frammistaðan á að geta verið betri en þetta," sagði Ágúst.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira