Innlent

Nem­endur og starfs­fólk harmi slegið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Framhaldsskólinn á Laugum er í Reykjadal í Þingeyjarsveit.
Framhaldsskólinn á Laugum er í Reykjadal í Þingeyjarsveit. Vísir/Vilhelm

Allt skólastarf fellur niður í Framhaldsskólanum á Laugum á morgun eftir banaslys sem varð við skólann í dag. Starfsfólki og nemendum er mjög brugðið vegna slyssins og verður boðið upp á áfallahjálp á morgun.

Rannsókn á tildrögum slyssins stendur yfir en rétt eftir klukkan tvö í dag fengu viðbragðsaðilar tilkynningu um að einstaklingur hefði orðið fyrir bíl við skólann. Nítján ára karlmaður, nemandi við skólann, var meðvitundarlaus þegar viðbragsaðilar komu á vettvang og báru endurlífgunartilraunir ekki árangur.

Í bréfi sem skólastjórnendur sendu á forráðamenn nemenda við skólann í kvöld kemur fram að bænastund hafi farið fram klukkan tíu í kvöld fyrir þá sem vildu.

Þá hefur áfallateymi Rauða krossins verið á staðnum í dag. Meðlimir þess hafa jafnframt aðstoðað nemendur og starfsfólk fram eftir kvöldi. Á morgun verður nemendum og starfsfólki einnig boðið upp á áfallahjálp.

Í bréfinu kemur fram að lögð sé áhersla á það að af hálfu skólans að fagleg ráðgjöf og aðstoð verði veitt þeim sem á þurfa að halda vegna slyssins.

„Við erum öll harmi slegin að missa mætan nemanda á svo sviplegan hátt. Hugur okkar er hjá aðstandendum hans,“ segir í bréfinu sem Sigurbjörn Árni Arngrímsson skólameistari skólans skrifar undir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×