Staðfest var fyrr í þessum mánuði að íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson væri með botnlangabólgu.
Nú hefur Sean Dyche, þjálfari Jóhanns Bergs hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Burnley, staðfest að vængmaðurinn verði frá í nokkrar vikur til viðbótar.
„Jóhann er að jafna sig hratt og örugglega eftir botnlangabólguna en það eru enn nokkrar vikur í að hann verði fullfrískur,“ sagði Dyche á blaðamannafundi í dag.
Burnley má ekki við því að vera án lykilmanna á borð við Jóhanns Bergs en liðið situr sem stendur á botni ensku úrvalsdeildarinnar. Lærisveinar Dyche taka á móti Manchester United á Turf Moor annað kvöld en gestirnir verða einnig án nokkurra leikmanna.
Brasilíumennirnir Alex Telles og Fred fengu báðir í kórónuveiruna er þeir voru í landsliðsverkefni nýverið. Hvorugur verður því leikfær er flautað verður til leiks annað kvöld.

Burnley er eins og áður sagði á botni deildarinnar með 13 stig, þremur stigum frá öruggu sæti. Lið Jóhanns Bergs á þó tvo leiki til góða á liðin fyrir ofan sig í töflunni. Man Utd er í 4. sæti með 38 stig.