„Hildur átti virkilega öflugan leik og þetta er leikmaður sem að má ekki gleyma,“ sagði Svava Kristín Gretarsdóttir, stjórnandi þáttarins. Anna Úrsúla Guðmundsdóttir tók undir það:
„Hún er þvílíkur handboltaheili. Hún getur einhvern veginn alltaf komið sér í færi. Hún smeygir sér stundum og maður skilur ekki hvernig maður missti af henni,“ sagði Anna.
„Hún er bara mætt á réttum tímapunkti, á rétta staði,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested áður en Anna bætti við:
„Hún veit hvað er að fara að gerast. Að hafa hana og Karen saman í liði er smá svindl.“
„Ákvarðanatakan hjá Karen er náttúrulega á einhverju öðru stigi. Hún er búin að lesa þetta allt fram í tímann og veit nákvæmlega hvernig leikurinn er að fara að þróast,“ sagði Svava.
Fram vann þó aðeins eins marks sigur, 24-23, og Sólveig benti á að Haukar gætu svekkt sig á því að hafa ekkert fengið út úr leiknum:
„Ég held að þegar Haukarnir skoði varnarleikinn sinn á móti Hildi, þá verði þær þokkalega svekktar,“ sagði Sólveig áður en talið barst að hinni efnilegu Ernu Guðlaugu Gunnarsdóttur sem átti einnig sinn þátt í sigri Fram. Umræðuna má sjá hér að ofan.
Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.