Fótbolti

Segir að HM í Katar geti orðið það besta frá upphafi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Roberto Martinez, þjálfari belgíska landsliðsins í fótbolta, telur að HM í Katar geti orðið það besta frá upphafi.
Roberto Martinez, þjálfari belgíska landsliðsins í fótbolta, telur að HM í Katar geti orðið það besta frá upphafi. Chris Ricco - UEFA/UEFA via Getty Images

Roberto Martinez, þjálfari belgíska landsliðsins í knattspyrnu, hefur trú á því að Heimsmeistaramótið sem fram fer í Katar í desember geti orðið það besta frá upphafi.

Mótið hefst þann 21. nóvember og úrslitin fara fram 18. desember. HM er yfirleitt haldið að sumri til, en til þess að sleppa við óbærilegan sumarhitann í Katar verður mótið heldið að vetri til þetta árið.

Það þýðir einnig að gera þarf hlé á öllum stærstu deildum heims þar sem þær eru yfirleitt í fullum gangi á þessum tíma árs. Martinez lítur sem svo á að það sé kostur fyrir gæði mótsins.

„Á hverju ári heyrir maður kvartanir yfir því að landsliðsfótbolti sé spilaður þegar leikmenn eru þreyttir eftir tímabilið með félagsliðum sínum,“ sagði Martinez í samtali við BBC.

„Ég held að þetta gæti orðið besta Heimsmeistaramótið frá upphafi af því að nú fáum við leikmenn í sínu allra besta formi á miðju tímabili.“

„Mótið byrjar bara nokkrum vikum eftir að deildirnar byrja þannig að leikmenn verða búnir að spila minna en 1.000 mínútur. Þetta er fullkominn tímapunktur fyrir leikmenn að fara og spila með landsliðum sínum.“

Belgíska liðið sem Martinez þjálfar er talið líklegt til afreka á HM í ár, en liðið trónir á toppi heimslista FIFA. Margir hafa beðið eftir því að þessi svokallaða gullkynslóð belgíska liðsins springi út og vinni loksins stórmót, og telja einhverjir að þetta sé þeirra seinasti séns í bili.

Sú ákvörðun FIFA að halda mótið í Katar hefur hins vegar verið harðlega gagnrýnd. Ekki vegna þess að halda þarf mótið í desember, heldur vegna fjölda mannréttindabrota sem framin hafa verið í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×