Skoðun

Mótmælum ofsóknum á fjölmiðlafólki

Ragna Sigurðardóttir skrifar

Í dag klukkan 14 boða ungliðahreyfingarnar Ungir jafnaðarmenn, Ungir Sósíalistar, Ung Vinstri græn, Uppreisn – ungliðahreyfing Viðreisnar og Ungir Píratar til mótmæla á Austurvelli í Reykjavík og á Ráðhústorginu á Akureyri klukkan 14:00. Við gerum það vegna aðfarar að einni af grunnstoðum frjáls lýðræðissamfélags: frjálsri blaða- og fréttamennsku.

Aðförin felst í því að fjórir blaðamenn hafa verið kallaðir til yfirheyslu lögreglu og hafa nú réttarstöðu sakborninga fyrir, að því er virðist, það eitt að hafa skrifað fréttir eiga sem erindi við almenning. Þær fréttir fjalla um skæruliðadeild Samherja og fyrirætlanir hennar meðal annars um að hafa áhrif á kosningar innan stjórnmálaflokka og áætlanir um að ná sér niður á uppljóstrara - uppljóstrara sem ekki hlýddi.

Óháð því hvernig þessi gögn voru fengin þá eiga fréttirnar sem upp úr þeim voru skrifaðar erindi við almenning. Og það er alveg ljóst í hegningarlögum að refsing vegna brots á friðhelgi einkalífs á ekki við ef háttsemin sem um ræðir er réttlætanleg með vísan til almannahagsmuna. Lögreglurannsókn hefur hins vegar fælingarmátt gagnvart frjálsri og óháðri blaða- og fréttamennsku.

Er þetta það frelsi sem sumum stjórnmálamönnum er svo tíðrætt um? Frelsi til að níðast á þeim sem segja sannleikann? Frelsi til að fæla þau frá sem vilja segja sannleikann?

Við á Íslandi búum við einsleitt fjölmiðlaumhverfi, þar sem rannsóknarblaðamennska þrífst illa og hagsmunaöfl eiga fjölmiðla. Nú hriktir í stoðum þess frjálsa samfélags sem við viljum búa í - og því mótmælum við. Við mótmælum til að standa vörð um frelsið, lýðræðið og sannleikann - sem sumir virðast ekki vilja að við vitum.

Ég hvet öll sem vilja standa vörð um frjálst samfélag til að mæta í dag kl. 14.

Höfundur er forseti Ungra jafnaðarmanna.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×