„Í hvaða heimi lifum við þar sem þetta getur gerst fyrir framan nefið á okkur?“ spurði Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, á mótmælafundi í dag. Fréttastofa var á svæðinu og ræddi meðal annars við Kristinn og einn blaðamannanna sem hefur réttarstöðu sakbornings í rannsókninni.
Fjallað var um mótmælin í kvöldfréttum Stöðvar 2 og má sjá í myndbandinu hér fyrir neðan hvernig andrúmsloftið var á Austurvelli í dag. Neðst í fréttinni er síðan að finna ræðu Kristins á mótmælafundinum í heild sinni.
Á fjórða hundrað manns var mætt á mótmælin á Austurvelli.
„Það er mjög merkilegt að sjá með svona afgerandi hætti hvað fólk er tilbúið að koma út í frost og nístingskulda til að standa með prinsippinu sem blaðamennska og frjáls fjölmiðlun og tjáningarfrelsið er,“ sagði Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður Stundarinnar, sem er einn þeirra fjögurra sem lögregla hefur boðað í skýrslutöku.
Eitt af fyrstu merkjum fasismans
Kristinn flutti þrumuræðu á mótmælafundinum í dag. Hann telur ljóst að lögreglan sé að reyna að þagga niður í blaðamönnum með rannsókn sinni.
„Og hvaða merki er það? Það er eitt af fyrstu merkjum þegar fasisminn fer að bæla á sér í samfélaginu. Þegar menn fara að kæfa niður lýðræðið þá fara þeir alltaf fyrst í blaðamennskuna og blaðamennina svo að enginn sé til að segja frá,“ sagði Kristinn í ræðu sinni.
Kristinn efast ekki um að Samherjamenn hafi sterk tengsl við lögregluna á Norðurlandi eystra og skýtur föstum skotum að Páleyju Borgþórsdóttur lögreglustjóra:
„Ég get ekki sagt annað en það að lögreglustýran nyrðra er gengin í björg með samherjamönnum. Hún er beisikklí gengin í lið með skæruliðadeild Samherja í þessu máli,“ sagði Kristinn í samtali við fréttastofu eftir mótmælafundinn.
Hér má sjá ræðu Kristins frá því í dag í heild sinni: