Fótbolti

Ísak Berg­mann ein­fald­lega skilinn eftir utan hóps | Lék með vara­liðinu í dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísak Bergmann í leik varaliðs FC Kaupmannahafnar í dag.
Ísak Bergmann í leik varaliðs FC Kaupmannahafnar í dag. FCK

Það vakti mikla athygli er Ísak Bergmann Jóhannesson var ekki í leikmannahóp FC Kaupmannahafnar er danska úrvalsdeildin í knattspyrnu fór aftur af stað eftir vetrarfrí um helgina. Þjálfari liðsins sagði Ísak Bergmann einfaldlega hafa verið skilinn eftir utan hóps að þessu sinni.

FC Kaupmannahöfn vann OB 1-0 í fyrsta leik sínum eftir vetrarfrí en eins og ótrúlegt og það hljómar var enginn Íslendingur á vellinum. Ísak Bergmann var utan hóps hjá FCK líkt og Andri Fannar Baldursson, Orri Óskarsson og Hákon Arnar Haraldsson. Þá er Aron Elís Þrándarson fjarri góðu gamni hjá OB.

Jess Thorup, þjálfari Kaupmannahafnarliðsins, sagði í viðtali við danska miðilinn Bold.dk að Ísak Bergmann hefði einfaldlega ekki verið valinn í leikmannahóp liðsins að þessu sinni. 

Vissulega hefði hann greinst með kórónuveiruna í æfingaferð liðsins og því ekki náð að æfa eins vel og aðrir leikmenn liðsins. Að því sögðu skoraði Ísak Bergmann tvö mörk er FCK lagði Breiðablik 4-3 í síðasta leik liðsins á Atlantic Cup í Portúgal.

„Ísak Bergmannhefur gert mjög vel. Hann er að bæta sig mikið dag frá degi og er að taka skref í rétta átt. Samkeppnin í liðinu er mikil og þannig hefur það alltaf verið þegar FCK er upp á sitt besta.“

„Við erum með gott umhverfi þar sem menn læra mikið á hverri æfingu. Við stefnum á að fara langt í Evrópu svo við þurfum á öllum okkar leikmönnum að halda,“ sagði Thorup við Bold.dk en hann var einnig spurður út í fjarveru Akinkunmi Amoo.

Sá er líkt og Ísak Bergmann einn af dýrari leikmönnum liðsins. Báðir tveir voru í byrjunarliði varaliðs FCK sem tapaði 3-0 fyrir varaliði FC Nordsjælland í dag. Orri Óskarsson kom inn af varamannabekk FCK í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×