Menning

Íslenskur myndlistarmaður með sýningu í Amsterdam: „Ljóðlistin seytlar inn í myndlistina“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Myndlistarmaðurinn Kristbergur Ó. Pétursson á sýningu sinni Paintings and Poems í Amsterdam.
Myndlistarmaðurinn Kristbergur Ó. Pétursson á sýningu sinni Paintings and Poems í Amsterdam. Aðsend

Íslenski myndlistarmaðurinn Kristbergur Ó. Pétursson opnaði einkasýninguna Paintings and poems í Amsterdam fyrir nokkrum vikum síðan í Wg Kunst salnum.

Sýningin stendur til 27. febrúar, næstkomandi sunnudags. Blaðamaður hafði samband við Kristberg um þetta spennandi verkefni.

Tæplega þrjátíu ára ferill

Ferill Kristbergs spannar bráðum þrjátíu ár en hann lauk listnámi árið 1988. Myndheimur verka hans á sér þróunarsögu sem má rekja til grafíkverka og teikninga í Amsterdam, þar sem Kristbergur lærði. Síðar beindist áhugi hans meira að málverki og hefur hann hvað mest unnið í olíumálverki, akríl myndum og síðastliðinn áratug einnig tekið til við vatnslitamálun.

Draumur sem rættist

Aðspurður segir Kristbergur að þetta tiltekna verkefni sé búið að vera í bígerð í rúm tvö ár. Hann var svo heppinn að finna þennan sýningarsal úti en hugmyndin að sýningu í Amsterdam á sér langan aðdraganda og má rekja aftur til níunda áratugarins.

„Ég var úti í myndlistarnámi í Amsterdam á árunum 1985-1988. Eftir að ég kom heim úr þessu námi hefur alltaf verið draumur að fara út með þessa sýningu.“

Verkin hönnuð fyrir rýmið

Listaverk sýningarinnar eru öll ný verk sem Kristbergur vann sérstaklega fyrir þennan tiltekna sal og þessa sýningu. Hann fékk nákvæma teikningu af salnum frá aðilunum sem reka hann og því gat hann hannað sýninguna fyrir rýmið, verk fyrir verk. Kristmundur segir að það hafi heilmikið að segja um heildar útlitið á sýningunni.

Ljóðlistin og myndlistin sameinast

Það er þó ekki bara myndlistin sem kemur fram á sýningunni, eins og titillinn Paintings and Poems gefur til kynna.

„Innblásturinn fyrir þessi tilteknu verk kemur úr dálítið óvæntri átt. Ég tók upp á því fyrir tíu árum síðan að byrja að skrifa ljóð,“ segir Kristbergur en í upphafi vissi hann ekki nákvæmlega hvað hann vildi gera við þessi ljóð. Smám saman hafi ljóðin svo farið að seytla yfir í myndirnar.

„Megnið af þessari sýningu eru beinvísanir í þessi tilteknu ljóð sem ég hef skrifað.

Ljóðin koma bara til mín einhvern veginn. Ég get ekki kallað á þau, þau bara koma.“

Ljóð Kristbergs fjalla um mannlega tilvist og náttúru og búa yfir húmor, ásamt því að vera stundum drungaleg. Í listsköpun sinni deilir hann persónulegri reynslu í bland við þverstæðukenndan raunveruleika en segja má að listaverkin á þessari sýningu mætist akkúrat á milli ánægjulegs tímaleysis náttúrunnar og blákalds raunveruleika þess sem er hér og nú. 

Olíumálverk Kristbergs búa yfir lögum af mörgum jarðlitum. Hann hefur átt í tilraunastarfsemi með ljóðin sín þar sem hann felur þau undir málningarlagi á striganum. Þannig eru orðin sem slík gerð óhlutbundin inn í línum og lögum sem mynda listræna heild ólíkra listmiðla.

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér


Tengdar fréttir

Möguleikar ljóðsins eru endalausir

Stuttungur er nýstárlegri ljóðahátið sem haldin verður í annað skiptið á morgun, fimmtudag og fagnar framúrstefnulegri nálgun á tungumálið. Hátíðin leggur áherslu á að skapa framsækinn vettvang fyrir tilraunakennda ljóðastarfsemi af ýmsu tagi. Ásta Fanney Sigurðardóttir er framkvæmdastjóri hátíðarinnar og bíður alla velkomna. 

Magnað að geta verið eitt í listinni og svo annað í lífinu

Myndlistakonan Ásdís Sif Gunnarsdóttir er hvað þekktust fyrir gjörningalist og video verk en hún hefur náð miklum árangri í listheiminum á síðustu áratugum og unnið að fjöldanum öllum af verkum og sýningum. Ásdís stendur nú fyrir einkasýningunni Stefnumót við sjálfið á Nýlistasafninu og er gestur í nýjasta þætti af KÚNST sem er að finna neðar í pistlinum.

„Efnið er nefnilega lifandi“

Listakonan Þóra Sigurðardóttir opnar sýninguna EFNI & RÝMI klukkan 14:00 í dag í sal félagsins íslensk grafík, Hafnarhúsinu, og stendur sýningin til 6. mars næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×