Fótbolti

Breytingar á keppnisfyrirkomulagi íslenska fótboltans

Atli Arason skrifar
Klara Bjartmarz er framkvæmdastjóri KSÍ
Klara Bjartmarz er framkvæmdastjóri KSÍ

Fjórar af fimm tillögum til lagabreytinga innan KSÍ voru samþykkt á ársþinginu sem fór fram í dag. Breytingarnar taka ýmist gildi á þessu eða næsta ári.

Tvískipt Besta deild karla og kvenna mun líta dagsins ljós. Leikin verður tvöföld umferð eins og vanalega en eftir tvöfalda umferð verður deildinni skipt upp í tvennt og einföld umferð leikin innbyrðis meðal efstu liða annars vegar og neðstu liða hins vegar. Breytingin tekur gildi strax í dag hjá körlunum en á næsta ári hjá konunum.

Deildum í meistaraflokk karla mun fjölga úr fimm í sjö. Fimmta deildin mun líka dagsins ljós og ný utandeild. Lagabreytingin mun taka gildi á næsta ári, sumarið 2023.

Umspil í 1. deild karla frá og með næsta sumri. Efsta lið deildarinnar fer beint upp í efstu deild á meðan liðin í 2.-5. sæti leika í umspili um hitt sætið í efstu deild.

Bikarkeppni neðri deilda karla verður til. Liðin í 2. og 3. deild eiga þátttökurétt og þau lið sem enduðu í 3.-8. sæti í fjórðu deild árið áður ásamt þeim liðum sem féllu úr 3. deild. Bikarkeppnin mun byrja sumarið 2023.

Tillaga um varalið hjá meistaraflokki kvenna, sem væru þá einnig gjaldgeng í deildarkeppni, var mikið rædd og mikið hitamál þar á ferð. Fór svo að loka þurfti á umræður um tillöguna og málið sætt þannig að tillagan mun verða send til starfshóps á vegum KSÍ og útfærð nánar þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×