Innlent

Kvöld­fréttir Stöðvar 2

Árni Sæberg skrifar
Erla Björg Gunnarsdóttir les fréttir í kvöld.
Erla Björg Gunnarsdóttir les fréttir í kvöld. Stöð 2

Það voru miklir fagnaðarfundir í Leifsstöð í nótt þegar tvær úkraínskar konur og börnin þeirra þrjú komu til landsins eftir vikulangt ferðalag frá Kænugarði. Eiginmenn kvennanna beggja komust ekki frá heimalandinu og hafa nú tekið upp vopn til að berjast gegn innrásarhernum. Við sýnum frá þessari tilfinningaþrungnu stund í fréttum okkar á Stöð 2 í kvöld.

Þá fjöllum við ítarlega um ástandið í Úkraínu en blóðugir bardagar geisa þar enn, viku eftir að innrás Rússa hófst. Þúsundir eru fallnir og milljónir eru á flótta.

Þá hefur holskefla tilkynninga borist Vegagerðinni síðustu daga vegna skemmda á bílum sem eigendur þeirra rekja til ástands vega. Vegagerðarmenn hafa vart undan við að fylla upp í holur.

Íslenskar loðnuútgerðir fá fimmtíu þúsund tonna viðbótarkvóta í loðnu þar sem Norðmönnum tókst ekki að klára sinn kvóta áður en veiðitímabili þeirra á Íslandsmiðum lauk. Fréttamaður okkar Kristján Már Unnarsson mun segja okkur allt frá þessu í beinni útsendingu frá Akranesi, þar sem hin geysiverðmæta hrognavinnsla er hafin.

Þá ræddum við í dag við börn sem kalla eftir því að rödd þeirra heyrist og að mark sé tekið á þeim.

Þetta og margt fleira á samtengdum rásum Stöðvar 2 og Bylgjunnar klukkan hálf sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×