Erlent

Bandaríkjamenn vara Rússa við því að þjóðnýta eignir erlendra fyrirtækja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
McDonalds er meðal þeirra stórfyrirtækja sem hefur hætt starfsemi í Rússlandi en þar voru starfræktir 850 staðir.
McDonalds er meðal þeirra stórfyrirtækja sem hefur hætt starfsemi í Rússlandi en þar voru starfræktir 850 staðir. epa/Maxim Shipenkov

Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, sagði á Twitter í nótt að bandarísk stjórnvöld fögnuðu ákvörðunum fyrirtækja að hætta starfsemi í Rússlandi vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Hún sagði mögulegar tilraunir Rússa til að leggja hald á eignir fyrirtækjanna í Rússlandi myndu leiða til enn frekari „efnahagslegs sársauka“ og senda skýr skilaboð til alþjóðasamfélagsins að Rússland væri ekki öruggt ríki til að fjárfesta í og stunda viðskipti.

Vladimir Pútín hafði í gær viðrað þann möguleika að þjóðnýta eignir erlendra fyrirtækja sem hafa yfirgefið Rússland og beindi því til embættismanna að grípa til aðgerða til að standa vörð um störf í landinu.

Pútín sagði mögulegt að eignir sumra fyrirtækja yrðu teknar yfir og færðar undir utanaðkomandi framkvæmdastjórn og í kjölfarið gefnar þeim sem vildu vinna.

Fjöldi alþjóðlegra stórfyrirtækja hefur hætt starfsemi í landinu og verslunum og fyrirtækjum verið lokað. Þá hefur Pútín lýst formlegum viðskiptaþvingunum Vesturveldanna sem jafngildi stríðsyfirlýsingar.

Ekkert lát er þó á þeim aðgerðum bandamanna Úkraínu en Joe Biden Bandaríkjaforseti mun í dag kalla eftir því að Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir slíti formlega viðskiptasambandi við Rússland. 

Þetta þýðir auknar álögur á vörur sem eru innfluttar frá Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×