Þótt margt bendi til að innrás Rússa í Úkraínu hafi ekki gengið eins hratt fyrir sig og áætlanir þeirra gerðu ráð fyrir er langt í frá að hún sé máttlítil. Stórskotaliðs- og loftárásir þeirra halda áfram að valda mannfalli, tjóni og skelfingu í borgum og bæjum víðs vegar um Úkraínu.

Nægir þar að nefna Chernihiv, Sumy og Kharkiv í norður- og austurhluta landsins. Áframhald mikilla átaka í Donetsk og Luhansk í austri sem staðið hafa yfir allt frá árinu 2014. Ekki má gleyma umsátrinu og árásunum á Mariupol í suðaustri þar sem 430 þúsund manns búa við algeran hrylling. Í suðri hafa Rússar náð yfirráðum yfir borgunum Kherson og Mykolaiv og stefna á Odessa.

Í nótt gerðu Rússar síðan loftárásir á Dnipro við samnefnda á og dal þaðan sem eru 480 kílómetrar norður til Kænugarðs, og borgina Lutsk langt vestur af Kænugarði. Þeir hafa aldrei áður gert loftárás svo vestarlega.

Það verður aftur á móti ekki auðvelt að hertaka alla Úkraínu sem er mjög stórt land, rúmlega 603 þúsund ferkílómetrar, eða sex sinnum stærri en Ísland.
Áhyggjur af efnavopnatali Rússa
Rússar hafa gefið í skyn að Úkraínumenn séu að koma sér upp efnavopnum. Zelenskyy Úkraínuforseti segir ásakanirnar segja meira um Rússa en Úkraínumenn sem ættu engin slík vopn og ætluðu sér ekki að komast yfir þau.
„Þetta veldur mér miklum áhyggjum vegna þess að við höfum ítrekað orðið þess vör að ef þú vilt komast að stefnu Rússa, skaltu kynna þér ásakanir þeirra á hendur öðrum,“ segir Zelenskyy.

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands tekur í sama streng. Rússar hermi eigin gjörðir upp á aðra í lygaherferðum sínum.
„Við sáum það gerast í Sýrlandi og jafnvel hér í Bretlandi.“
Reiknar þú með að það gerist næst?
„Þetta er lýsing á því hvernig þeir eru. Þeir eru nú þegar að þessu. Þetta er kaldrifjuð og villimannsleg stjórn,“ segir Johnson í viðtali.

Ekkert lát er á flóttamannastraumnum frá Úkraínu til nágrannaríkjanna í vestri. Nú er talið að um eða yfir 2,4 milljónir hafi flúið landið.
Biden segir Putin hafa misreiknað samstöðu Vesturlanda
Leiðtogar Evrópusambandsins komu saman á öðrum degi fundar síns um Úkraínu í Frakklandi í dag. Þeir lofa Úkraínumönnum auknum fjármunum í neyðaraðstoð og til vopnakaupa og að aðildarumsókn þeirra að sambandinu fái eins skjóta afgreiðslu og hægt er.

Á sama tíma ræðir Putin við hershöfðingja sína um að senda 16 þúsund erlenda málaliða, aðallega frá Sýrlandi, til Úkraínu og segir best ef ekki þurfi að greiða þeim laun.
Putin fundar einnig með þeim örfáu vinum sem hann á í hópi erlendra þjóðarleiðtoga, eins og Alexander Lukashenka forseta Hvítarússlands í dag.

Joe Biden Bandaríkjaforseti segir einingu Vesturlanda hafa komið Putin á óvart.
„Putin reiknaði með sundruðu Atlantshafsbandalagi, sundruðum Vesturlöndum og í hreinskilni sagt sundruðum Bandaríkjum. En ekkert af því gekk eftir. Þess í stað mætir hann enn sameinaðri, kraftmeiri og áræðnari NATO og Vesturlöndum en hann hefði nokkru sinni getað órað fyrir,“ segir Joe Biden.
Farið var yfir stöðuna í Úkraínu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.