Handbolti

Hansen í aðgerð og eiginkonan heima þegar þjófar stálu gullúri

Sindri Sverrisson skrifar
Mikkel Hansen verður frá keppni í 4-6 vikur á mikilvægum tímapunkti handboltaleiktíðarinnar. Þjófar stálu skartgripum frá eiginkonu hans, Stephanie Gundelach, á föstudaginn.
Mikkel Hansen verður frá keppni í 4-6 vikur á mikilvægum tímapunkti handboltaleiktíðarinnar. Þjófar stálu skartgripum frá eiginkonu hans, Stephanie Gundelach, á föstudaginn. Getty

Segja má að danska handboltastjarnan Mikkel Hansen og eiginkona hans, Stephanie Gundelach, hafi orðið fyrir tvöföldu áfalli á síðustu dögum.

Franska félagið Paris Saint-Germain, sem Hansen spilar með, greindi frá því í gær að hann hefði gengist undir aðgerð á hægra hné og yrði frá keppni í 4-6 vikur. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem að hægra hnéð angrar þennan 34 ára gamla leikmann og hann fór einnig í aðgerð vegna meiðsla í því árið 2013.

Ekki nóg með það heldur fóru tveir óprúttnir náungar ránshendi um hús þeirra Hansens og Gundelach í París á föstudagsmorgun, samkvæmt frétt L‘Equipe.

Blaðið segir að þjófarnir hafi komist inn í húsið með því að ljúga því að þeir ættu að yfirfara framkvæmdir sem þar hafa verið í gangi. Gundelach mun ekki hafa grunað neitt vafasamt í fyrstu en síðar heyrðist grunsamlegur hávaði.

Gundelach, sem hefur verið gift Hansen frá árinu 2020, fór yfir eigur sínar þegar þjófarnir voru farnir og komst að því að búið var að brjóta upp skartgripaskríni hennar. Þjófarnir tóku þá skartgripi sem þar voru, meðal annars verðmætt gullúr, en andvirði skartgripanna mun hafa numið 60.000 evrum eða um 8,7 milljónum króna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×