Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í allan dag.
Helstu vendingar:
-
Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, segir Vladimír Pútin, forseta Rússlands, vera valdaminni mann en hann var fyrir innrásina í Úkraínu. Hann væri fangi í eigin búri.
-
Ráðamenn í Bandaríkjunum telja að aukin áhersla Rússa á að ná tökum á Donbas-héraði gæti dregið stríðið í Úkraínu á langinn. Þar hefur í raun verið stríð samfleytt undanfarin átta ár og Bandaríkjamenn telja að úkraínskar hersveitir í héraðinu hafi veitt Rússum harða mótspyrnu.
-
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir að hersveitir Rússa séu ekki að hörfa heldur séu Rússar að endurskipuleggja sig. Á sama tíma og Rússar ætli sér að gefa aukinn kraft í sókn þeirra í Donbass, ætli þeir að halda áfram þrýstingi á Úkraínumenn við Kænugarð.
- Vladimír Pútín, forseti Rússlands, skrifaði í dag undir skipun um að 134.500 ungir menn yrðu kvaddir í rússneska herinn. Um árlegan viðburð er að ræða og halda forsvarsmenn varnarmálaráðuneytis Rússlands að herkvaðningin komi innrásinni í Úkraínu ekkert við.
- Rússneska varnarmálaráðuneytið tilkynnti í morgun um tímabundið vopnahlé í Maríupól í dag til að greiða fyrir rýmingu borgarinnar.
- Friðarviðræður milli Úkraínumanna og Rússa munu halda áfram á morgun.
- Selenskí sagði Úkraínu þurfa aðstoð og vopn. „Frelsið á ekki að vera verr vopnað en harðræði,“ sagði hann.
- Viðskiptaþvinganir Vesturlanda eru sagðar hafa komið hart niður á framleiðslu bifreiða og skriðdreka í Rússlandi.
- Rúblan hefur náð fyrri styrk en olíuverð lækkað. Líklega má rekja þetta til kröfu Rússa um að fá greitt fyrir orku í eigin gjaldmiðli og til fyrirætlana ráðamanna vestanhafs að ganga á olíubirgðir sínar.
- Átta rússneskir auðmenn sem eru nú á lista yfir þá sem sæta viðskiptaþvingunum fengu svokallað „gullið vegabréf“ í Bretlandi, eftir að hafa lofað að fjárfesta þar fyrir að minnsta kosti 2 milljónir punda.
![](https://www.visir.is/i/B9347CE2A26A4404ACC6B40F83F3EAE142E6F55214783C979B25B003B3CBCDFE_713x0.jpg)