Umfjöllun og viðtöl: Haukar - KA 27-24 | Haukar halda forskoti sínu á toppnum

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Haukarnir voru öflugir í lok leiksins í kvöld.
Haukarnir voru öflugir í lok leiksins í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Haukar fengu KA í heimsókn í kvöld í 20. umferð Olís-deildar karla í handbolta. Var leikurinn spennandi allt fram á lokamínútu leiksins. Lauk leiknum þó með þriggja marka sigri heimamanna, eftir að hafa verið undir stóran hluta leiksins. Lokatölur 27-24.

Haukar sitja því enn í bílstjórasætinu um deildarmeistaratitilinn þegar aðeins tvær umferð eru eftir af Olís-deildinni. Valur vann einnig sinn leik í kvöld, en þeir sitja tveimur stigum á eftir Haukum í töflunni. Þýðir það að það er hálfgerður úrslitaleikur um deildarmeistaratitilinn í næstu umferð þar sem þessi tvö lið mætast.

Fyrstu mínúturnar í leiknum í kvöld fóru hægt af stað, lítið sem ekkert var um hraðaupphlaup, einungis uppstilltur sóknarleikur. Staðan eftir um tíu mínútur 2-4 KA í vil. Haukar voru í miklum vandræðum með varnarleik KA, en KA-menn mættu leikmönnum Hauka ofarlega í varnarleik sínum. Haukar voru einnig í smá vandræðum varnarlega, en liðið fékk á sig fimm tveggja mínútna brottvísanir í fyrri hálfleik. Áttu þær allar fullan rétt á sér og voru nokkrar ansi klaufalegar.

Nicholas Satchwell, markvörður KA, var að verja vel og lokaði til að mynda alveg á Brynjólf Snæ Brynjólfsson, hornamann Hauka, en hann klikkaði á öllum fjórum skotum sínum í fyrri hálfleik. Hálfleikstölur 11-13 KA-mönnum í vil.

Það tók Hauka níu mínútur til að jafna leikinn í síðari hálfleik, staðan 15-15. Liðin voru hnífjöfn næstu átta mínútur. Eftir þær komust Haukar í tveggja marka forystu og Jónatan Magnússon, þjálfari KA, tók leikhlé. Staðan þá 20-18. Á þeim tímapunkti var Stefán Rafn Sigurmannsson, leikmaður Hauka, nýbúinn að fá sína þriðju tveggja mínútna brottvísun og þar með rautt spjald.

Haukar juku forskot sitt hægt og bítandi næstu mínútur og komust mest í fjögurra marka forystu. KA-menn fóru í hálfgerða maður á mann vörn hátt á vellinum á lokamínútunum og náðu að minnka muninn niður í eitt mark, 25-24, þegar aðeins mínúta var eftir. Haukar nýttu hins vegar alla sína reynslu á loka mínútunni og náðu að skora tvö síðustu mörk leiksins.

Af hverju unnu Haukar?

Reynsla Hauka var sennilega það sem skóp sigurinn. Um leið og Heimir Óli Heimisson, línumaður Hauka, kom inn á lagaðist leikur liðsins helling. Einnig lék Atli Már Báruson, leikmaður Hauka, á lokakafla leiksins þegar leikurinn var í járnum. Hann skoraði t.d. næst síðasta mark Hauka sem var gríðarlega mikilvægt á þeim tímapunkti. Þetta eru svo sannarlega menn með reynslu.

Hverjir stóðu upp úr?

Eins og fyrr segir voru þeir Heimir Óli Heimisson og Atli Már Báruson öflugir í liði heimamanna. Báðir enduðu með hundrað prósent nýtingu, Heimir Óli með fimm mörk og Atli Már með fjögur.

Í liði KA var Óðinn Þór Ríkharðsson markahæstur með sjö mörk úr níu skotum. Einu tvö skotin sem hann klikkaði voru vítaskot sem reyndust dýrkeypt að lokum.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Hauka í fyrri hálfleik var stirður en það var allt annað að sjá Hauka í sókn í síðari hálfleik.

Ólafur Gústafsson, stórskytta KA, skoraði þrjú mörk úr níu skotum. Hann tók nokkur af þessum misheppnuðu skotum á lokakafla leiksins þegar leiðir liðanna skyldu og voru þó nokkur skotin frekar illa ígrunduð. Hefði þurft meiri ró frá einum reynslumesta leikmanni vallarins þá.

Hvað gerist næst?

Næst síðasta umferð Olís-deildarinnar fer fram næstkomandi miðvikudag og hefjast allir leikir klukkan 19:30. Haukar fara í Origo höllina og mæta Val í stórleik komandi umferðar. Aftur á móti fær KA Selfyssinga í heimsókn.

Jónatan Þór Magnússon, þjálfari KA.Visir/Hulda Margrét

Jónatan Magnússon: Okkur gekk illa að eiga við þá þegar hann kom inn á

„Mér fannst við varnarlega mjög góðir sirkabát þangað til að Heimir Óli (línumaður Hauka) fór að fara meira í sóknina. Okkur gekk illa að eiga við þá þegar hann kom inn á. Að sama skapi er ég svekktur að vera ekki með meira forskot í fyrri hálfleik. Mér fannst við alveg vera með fín tök á þessu. Ég hefði helst viljað meira tempó, keyrt betur á þá og skorað fleiri mörk úr hraðaupphlaupum og hröðum sóknum.“

Tvö víti fóru forgörðum hjá KA í leiknum. Jónatani Magnússyni, þjálfari KA, fannst það ekki vera neitt stórmál.

„Jú jú. Menn klikka alveg vítum og færum og fleira. En allan fyrri hálfleik og í seinni hálfleik fannst mér við bara vera fara vel með allar okkar sóknir, en svo kom aðeins varsla hjá Haukum í seinni hálfleik og við misstum aðeins tökin satt best að segja og náum einhvern veginn ekki að halda riðmanum sem var fyrstu 40, 45 mínúturnar.“

KA náði að minnka muninn niður í eitt mark fyrir lokamínútu leiksins.

„Ég meina við vorum klárlega komnir í brekku og fórum framar á þá og tókum smá sénsa, en það þurfti svo sem ekkert mikið. Það þyrfti kannski, að geta náð í stig en það var allavegana smá karakter að ná að gefa þessu leik hérna í restina, en þá fórum við líka að hlaupa eitthvað sem við gerðum ekki sérstaklega í seinni hálfleik. Ég er mest svekktur yfir því.“

Aron Kristjánsson, þjálfari HaukaVísir/Hulda Margrét

Aron Kristjánsson: Venjulega erum við að gera þessa hluti mjög vel

Haukar fengu KA í heimsókn í kvöld í 20. umferð Olís-deildar karla í handbolta. Var leikurinn spennandi allt fram á lokamínútu leiksins. Lauk leiknum þó með þriggja marka sigri heimamanna, eftir að hafa verið undir stóran hluta leiksins. Lokatölur 27-24.

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, fannst sýnir menn sýna mikinn viljastyrk til að vinna leikinn.

„Þetta var bara svolítið erfitt í dag. Við sýndum mikinn sigurvilja og neituðum að láta leggja okkur. Við ætluðum að taka þessi tvö stig og þetta var svona erfiður leikur framan af. Við vorum að fá allt of mikið af tveggja mínútna brottvísunum í fyrri hálfleik og lentum tvisvar sinnum tveimur færri. Það er mjög erfið staða í einum hálfleik að lenda tvisvar sinnum tveimur mönnum færri. Klikkum á dauðafærum úr hornunum, þó nokkrum, samt bara tvö mörk í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var töluvert betri. Við náum fjögurra marka forskoti í seinni hálfleik, þannig að það er sex marka sveifla. Við klárum tvö stig.“

Aðspurður út í hvað honum þætti um allan þann fjölda brottvísana sem lið hans fékk í kvöld sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, þetta.

„Ég sá ekki eins og í fyrri hálfleik en síðasta var alveg rétt (tveggja mínútna refsing á Stefán Rafn Sigurmannsson). Við vorum klaufalegir líka. Hornamennirnir okkar að stíga inn í menn í dauðafærum og svo framvegis, í stað þess að láta menn fara. Það er bara ekki nógu gott, við þurfum að vera klókari þar. Ég var ánægður með þéttleikann varnarlega í seinni hálfleik, þá vorum við grimmir í okkar leik. Við vorum að vísu að lenda í smá vandræðum, meiðsla vandræðum og Stebbi (Stefán Rafn Sigurmannsson) með þrisvar tvær. En þú veist, bara berjast fyrir þessu.“

Aroni Kristjánssyni, þjálfari Hauka, fannst sitt lið sýna klaufaskap undir lok leiksins .þegar KA-menn náðu að minnka muninn niður í eitt mark.

„Það var náttúrulega ótrúlegur klaufagangur. Við stillum einhverju ákveðnu upp en náum ekki að, stöndum á vitlausum stöðum og eitthvað. Það er líka að vera í þessari stöðu, leikmennirnir eru inn á að stýra, þetta var svolítið óðagot. Venjulega erum við að gera þessa hluti mjög vel og líka klikkum á dauðafærum fyrir utan tæknifeila. Við sýnum styrk að klára þetta.“

Næst síðasta umferð Olís-deildarinnar fer fram næstkomandi miðvikudag og þar mæta Haukar Val. Sitja þessi tvö lið í efstu sætum deildarinnar þar sem aðeins tvö stig skilja liðin að. Gæti sá leikur ráðið úrslitum um deildarmeistaratitilinn.

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, var stutt orður þegar hann var spurður út í þann leik.

„Það er bara úrslitaleikur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira