Síðustu ár hafa reglulega borist fréttir af fjölmennum mótmælaaðgerðum í Hong Kong eftir sífellt sterkari ítök stjórnvalda á fastalandinu í Kína. Hin 64 ára Carrie Lam var handvalin af stjórnvöldum í Peking til að fara með embætti leiðtoga heimastjórnar Hong Kong árið 2017.
Lam sagði blaðamönnum frá því í morgun að hún hafi greint stjórnvöldum í Kína frá því þegar á síðasta ári að hún hefði ekki áhuga á að sækjast eftir endurkjöri þegar skipunartími hennar væri á enda á þessu ári. Hún segist ætla að einbeita sér að fjölskyldunni þegar hún lætur af embætti.
John Lee, háttsettur embættismaður innan heimastjórnar Hong Kong, þykir líklegastur til að taka við af Lam. Hann er fyrrverandi lögreglumaður og var áberandi í baráttu stjórnvalda við mótmælendur sem kröfðust lýðræðisumbóta árið 2019. Mikill fjöldi mótmælenda var handtekinn og dæmdur vegna aðildar að mótmælunum.
Um 1.500 manna nefnd, sem er aðallega skipuð mönnum sem eru trúir stjórnvöldum í Kína, skipar leiðtoga heimastjórnar Hong Kong.