Tónlist

Tónlist sem hægt er að dansa við á klúbbnum en líka gráta við heima hjá sér

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Fannar Ingi í Hipsumhaps var að senda frá sér lagið Hringar. Hann fær oftast hugmyndir að lögum þegar hann hlustar á tónlist sem hittir beint í hjartastað.
Fannar Ingi í Hipsumhaps var að senda frá sér lagið Hringar. Hann fær oftast hugmyndir að lögum þegar hann hlustar á tónlist sem hittir beint í hjartastað. Anna Maggý/Aðsend

Hljómsveitin Hipsumhaps sendi frá sér glænýjan smell fyrr í dag. Lagið ber nafnið Hringar og er grípandi taktfast danslag sem býr yfir angistar víbrum. Blaðamaður hafði samband við Fannar Inga söngvara Hipsumhaps og fékk nánari innsýn í gerð lagsins.

Hvaðan kemur innblásturinn fyrir þessu lagi?

Mig langaði að gera heimsendapopp. 

Svona tónlist sem hægt er að dansa við á klúbbnum en líka gráta við heima hjá sér. Eða bæði í einu. 

Ég hlusta mikið á breskt breakbeat eins og til dæmis Jamie xx og langaði að gera lag í þeim stíl. Ef það er einhver sem hefur þessa stemmingu á hreinu að þá er það hann vinur minn Arnar Ingi, Young Nazareth, sem gerði lagið með mér.

Klippa: Hipsumhaps - Hringar

Hefur lagið verið lengi í bígerð?

Við byrjuðum að taka upp lagið í byrjun mars og frumfluttum það í Gísla Marteini tveimur vikum síðar. Við vissum hvert við stefndum og kláruðum lagið á frekar stuttum tíma. Þeir sem koma að laginu eru ég og Arnar ásamt Ólafi Alexander á gítar. Friðfinnur Oculus sá svo um masteringu og Sigurður Ýmir hannaði umslagið.

Umslagið fyrir nýjasta smell Hipsumhaps, Hringar, er hannað af Sigurði Ými.Aðsend

Hvernig er ferlið að semja lag almennt hjá þér, frá hugmynd að lokaútkomu?

Erfið spurning. Ég fæ oftast hugmyndir að lögum þegar ég hlusta á tónlist sem hittir beint í hjartastað. Þá tek ég upp á símann minn eitthvað gutl, eða gaul, og skoða svo hvaða texta ég á sem henta laglínunni. Þegar mér finnst ég vera kominn með eitthvað konsept þá fer ég að hitta pródúsent og skoða hvaða stefna hentar laginu. 

Fegurðin við Hipsumhaps hefur alltaf verið sú að það er ekki einhver ein stefna eða einn ákveðinn stíll á tónlistinni sem er mjög frelsandi. Getum bara gert hvað sem er. 

En svo er bara að taka upp, vera samkvæmur sjálfum mér og sleppa takinu þegar hlutirnir eru farnir að þróast úr einbeitingu yfir í þráhyggju. Eftir útgáfu geri ég svo heiðarlega tilraun til þess að fá aðra til að fíla stöffið mitt jafn mikið og ég sjálfur.

Hvað er á döfinni hjá Hipsumhaps?

Ég er að vinna að nýju efni í róleg heitunum og undirbúa mig fyrir golfið í sumar. Svo á ég þann draum að spila á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Áttum að spila í fyrra og vonandi gengur það upp í ár. Í haust flyt ég síðan til Danmerkur með kærustunni minni og hlakka mikið til þess. Þá ætla ég að hlaða í show í Köben. Það er klárt mál.

Lagið á Spotify:


Tengdar fréttir

Hipsumhaps færði Votlendissjóði 400.000 krónur

Hljómsveitin Hipsumhaps hefur afhent Votlendissjóði 400.000 krónu stuðning til endurheimtar votlendis. Hér er um að ræða afrakstur sölu á stafrænum eintökum af síðustu plötu Hipsumhaps sem ber nafnið „Lög síns tíma.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.