Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í allan dag.
Helstu vendingar:
-
Hroki Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, og einangrun hans leiddu til til þess að forsetinn rússneski vanmat aðstæður í Úkraínu og ofmat getu rússneskra hersveita til að hernema landið.
- Vladimír Pútín sagði á blaðamannafundi í dag að það væri Úkraínumönnum að kenna að friðarviðræður vegna innrásar Rússa í Úkraínu hefðu ekki borið árangur hingað til.
- Nærri tveir þriðjuhlutar allra barna í Úkraínu hafa flúið heimili sín á þeim sex vikum sem liðnar eru frá því að Rússar réðust inn í landið. Sameinuðu þjóðirnar hafa staðfest dauða 142 barna í átökunum en segja raunverulegan fjölda líklega mun meiri.
- Yfirvöld í Úkraínu segjast hafa fleiri en 6.000 stríðsglæpi til rannsóknar. Fleiri sögur eru að berast af grófu kynferðisofbeldi sem Rússar eru sagðir hafa beitt konur og börn.
- Íbúar í Kharkív og norðurhluta Úkraínu hafa verið varaðir við því sem Selenskí hefur kallað „hundrað þúsund hættulega hluti“ sem innrásarherinn hefur skilið eftir sig; jarðsprengjur og ósprungnar og virkar sprengjur.
- Rússar eru taldir munu taka Maríupól áður en þeir hefja stórsókn sína í Donetsk, þar sem þeir munu freista þess á næstu vikum að ná yfirráðum og tengja Donbas við hinn þegar innlimaða Krímskaga.
- Vladimir Pútín Rússlandsforseti og Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, eru sagðir munu hittast í dag, meðal annars til að ræða ástandið í Úkraínu og refsiaðgerðir Vesturlanda.
