Skoðun

Ný mót­töku­mið­stöð bylting í þjónustu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar

Fólki sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi hefur fjölgað gríðarlega að undanförnu, ekki síst vegna innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu. Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að taka vel á móti fólki sem hingað leitar, en liður í því var að færa alla þjónustu við fólk sem hér sækir um alþjóðlega vernd til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis frá dómsmálaráðuneyti. Þar með verður öll þjónusta við fólk fyrir og eftir að það fær vernd undir sama ráðuneyti.

Fólk á flótta er að koma úr gríðarlega erfiðum aðstæðum þar sem það hefur þurft að yfirgefa heimili sín með skömmum fyrirvara og skilja við fyrra líf sitt. Mikilvægi þess að grípa þetta fólk og hlúa að því dylst því engum. Þess vegna er það ákaflega ánægjulegt að hafa nýlega opnað nýja móttökumiðstöð þar sem umsækjendur um alþjóðlega vernd fá alla helstu þjónustu sem það þarf við komuna til landsins á einum stað. Í móttökumiðstöðinni koma saman ólíkar stofnanir sem áður voru á mörgum stöðum, en vinna nú á sama stað með það að markmiði að taka sem best á móti því fólki sem hér sækir um alþjóðlega vernd og veita því skjóta og skilvirka þjónustu við komuna og stuðla jafnframt að jákvæðari upplifun fólks af þjónustunni.

Í móttökumiðstöðinni sér lögreglan um skráningu og auðkenningu fólks, Útlendingastofnun tekur móttökuviðtöl, undirbýr fyrstu búsetu og í tilfelli umsækjenda frá Úkraínu afgreiðir stofnunin umsóknir þeirra yfirleitt samdægurs. Heilsugæslan framkvæmir fyrstu heilbrigðisskoðun og Fjölmenningarsetur gerir þarfagreiningu í tengslum við varanleg húsnæðisúrræði og miðlar jafnframt umsækjendum sem komnir eru með vernd í bráðabirgðahúsnæði. Þá mun Vinnumálastofnun einnig fá aðstöðu í móttökumiðstöðinni til að miðla upplýsingum um atvinnumöguleika hérlendis.

Móttökumiðstöðin felur því í sér mun betri þjónusta við fólk sem hingað leitar og hún skapar hagræði og yfirsýn fyrir okkur sem veitum þjónustuna. Móttökumiðstöðin er því bylting í þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Ber ég miklar vonir til þess að hún sé komin til að vera.

Höfundur er félag- og vinnumarkaðsráðherra.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×