Fótbolti

Martin Hermannsson gagnrýnir liðsval FH-inga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Eggert Gunnþór Jónsson í leik með FH.
Eggert Gunnþór Jónsson í leik með FH. Vísir/Bára

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, setur stórt spurningarmerki við það að Eggert Gunnþór Jónsson sé í byrjunarliði FH-inga gegn Víkingum í opnunarleik Bestu-deildarinnar sem nú fer fram.

Þegar þetta er ritað er hálfleikur í leiknum og staðan er 1-1. Steven Lennon kom FH-ingum yfir eftir aðeins hálfa mínútu áður en Ari Sigurpálsson jafnaði fyrir Íslandsmeistarana.

Martin Hermannsson, einn besti körfuboltamaður þjóðarinnar, varpaði þó fram spurningu á Twitter-síðu sinni þegar leikurinn var í þann mund að hefjast.

„Er eðlilegt að menn sem eru undir lögreglurannsókn vegna grófs kynferðisofbeldis séu í byrjunarliði í @bestadeildin?“ spyr Martin.

Eins og áður segir var Eggert Gunnþór Jónsson í byrjunarliði FH-inga þegar flautað var til leiks, en hann hefur verið sakaður um kynferðisbrot ásamt Aroni Einari Gunnarssyni í landsliðsverkefni í Kaupmannahöfn fyrir rúmum áratug.

Rannsókn lögreglu á málinu er lokið og málið fór í framhaldinu til ákærusviðs lögreglunnar og þaðan var að sent til héraðssaksóknara undir lok síðasta mánaðar. Enn hefur þó ekki komið fram hvort ákæra verði gefin út í málinu.

Eggert Gunnþór og Aron gáfu báðir skýrslu í byrjun desember. Lögmaður Arons sendi svo frá sér yfirlýsingu fyrir hönd þeirra beggja í kjölfar þess þar sem þeir hafna því með öllu að hafa brotið af sér. Þá hafa þeir báðir hafnað ásökunum um kynferðisbrot og lýst yfir sakleysi sínu, ásamt því að segjast búast við því að málið yrði fellt niður.


Tengdar fréttir

Aron Einar og Eggert reikna með því að málið verði fellt niður

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu, hefur gefið skýrslu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn á kynferðisbroti í Kaupmannahöfn árið 2010. Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður FH og fyrrverandi landsliðsmaður, gaf skýrslu hjá lögreglu í sama máli í gær. Leikmennirnir segjast báðir reikna með því að málið verði fellt niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×