Myndbandið birtist á Youtube og þar er talað við konur sem hafast við í verinu. Þær segja fimmtán börn vera í göngum undir stálverinu, allt frá ungabörnum til unglinga. Þau eru þar innilokuð ásamt fjölskyldum sínum, öðrum óbreyttum borgurum sem og starfsmönnum versins.
Matur og vatn er næstum á þrotum og fólk á barmi hungurs. Hún segir þær birgðir sem fólk tók með sér vera að klárast.
„Barnið mitt þarf að komast héðan á friðsamlegt svæði og aðrir sömuleiðis. Við biðjum fyrir öryggi barnanna okkar. Við höfum áhyggjur af börnunum sem og þeim eldri sem þurfa læknishjálp. Það líður ekki dagur án sprengjuárása og fólk er hrætt við að fara á klósettið,“ segir konan í myndbandinu.
Myndbandið var tekið upp á fimmtudag og þar má sjá börn lita í litabók. Ungur drengur segir að hann þrái að sjá sólarljósið aftur og anda að sér fersku lofti eftir að hafa verið lokaður inni vikum saman í þessari dýflissu.
Þá er einnig rætt við konu sem segist hafa verið innilokuð síðan 25.febrúar, frá öðrum degi innrásar Rússa í Úkraínu. Aðrir segjast hafa leitað skjóls í verinu í byrjun mars þegar Rússar réðust að íbúðarhverfum borgarinnar.
Á fimmtudag lýsti Vladimír Pútín yfir sigri í Maríupól og sagði borgina fallna. Hann sagði að hersveitir Rússa í borginni myndu ekki reyna að ráðast inn í stálverið en sprengjuárásir Rússa hafa hins vegar haldið áfram.