Fótbolti

Kostar tæplega 140 milljarða að leysa Araujo undan nýja samningnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Börsungar ætla sér að sjá til þess að Ronald Araujo verði lengi í herbúðum liðsins.
Börsungar ætla sér að sjá til þess að Ronald Araujo verði lengi í herbúðum liðsins. Joan Valls/Urbanandsport /NurPhoto via Getty Images

Varnarmaðurinn Ronald Araujo skrifaði undir nýjan samning við spænska stórveldið Barcelona í dag til ársins 2026. Í samningnum er riftunarákvæði upp á einn milljarð evra.

Það samsvarar rétt tæplega 140 milljörðum íslenskra króna, en gamli samningur leikmannsinns átti að gilda til ársins 2023.

Þessi 23 ára Úrúgvæi hefur leikið 26 deildarleiki fyrir Barcelona á tímabilinu og skorað í þeim fjögur mörk. Þar af skoraði hann eitt markanna í 4-0 sigri Barcelona gegn erkifjendunum Real Madrid.

„Hann hefur sannað það að hann er nútíð og framtíð Barcelona og er orðinn mikilvægur hlekkur í vörn liðsins,“ segir í tilkynningu á opinberri heimasíðu Barcelona.

„Hæfileikar hans í vörn og markaskorun þýða að hann er lykilleikmaður á komandi árum.“

Araujo gekk til liðs við Barcelona frá Boston River í heimalandinu árið 2018. Hann spilaði sinn fyrsta leik með aðalliði félagsins þegar hann kom inn af varamannabekknum í leik gegn Sevilla árið 2019, en var sendur af velli með rautt spjald aðeins 14 mínútum síðar.

Þá á hann að baki níu leiki fyrir úrúgvæska landsliðið, en hann lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×