Verðbólga hér á landi hefur hækkað upp í 7,2 prósent og hefur ekki mælst hærri síðan í maí 2010, þegar hún nam 7,5 prósentum. Stýrivextir gætu hækkað um allt að eitt prósentustig í vikunni ef spár bankanna ganga eftir. Formaður VR sagði í samtali við fréttastofu í kvöldfréttum að slíkt komi sér gríðarlega illa fyrir heimilin í landinu og biðlaði til peningastefnunefndar Seðlabankans að finna aðrar leiðir.
Verkefnastjóri verðbólgueftirlits ASÍ sagði þá í kvöldfréttum að verðbólgan mælist á mjög breiðum grundvelli. Verðbólguna megi því nema í mörgum vöruflokkum en líka þjónustu.
„Það sem er að hækka mest í verði er bensín, húsnæði og svo er matvara að hækka töluvert mikið í verði. Við erum líka að sjá töluverðar verðhækkanir á ýmissi þjónustu, þar á meðal á opinberri þjónustu,“ sagði Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Aðspurð hvort búast megi við enn meiri hækkun verðbólgu segir hún það velta á viðbrögðum stjórnvalda.
„Það fer auðvitað bara eftir því hvað stjórnvöld gera, bæði hvað varðar hækkanir á húsnæði og eins hvað varðar hækkanir á opinberum gjöldum. Það skýtur dálítið skökku við að opinber þjónusta sé að hækka svona mikið á tímum sem þessum. En þá veltur það líka á því hvað fyrirtækin gera,“ sagði Auður.
Hún segir nauðsynlegt að stjórnvöld grípi inn í og með mun sterkari hætti. Þó velti verðlagshækkanir ekki aðeins á þeim.
„Það er mjög furðulegt að sjá fyrirtæki hækka verð, eins og stórar matvöruverslanir, á sama tíma og er tilkynnt um margra milljarða króna hagnað hjá þessum fyrirtækjum, sem við sáum núna í vikunni,“ sagði Auður.
Peningastefnunefnd Seðlabankans mun koma saman á miðvikudag og tilkynna hversu mikið stýrivextir bankans hækka við næstu vaxtaákvörðun. Stóru bankarnir þrír gera ráð fyrir að hækkunin muni vera um hálft til eitt prósentustig.