Ísak Bergmann, sem hefur ekki tekist að vinna sér fast sæti í byrjunarliði FC Köbenhavn, á yfirstandandi leiktíð kom inná sem varamaður á 68. mínútu leiksins.
Þetta var 13. deildarleikurinn sem þessi 19 ára landsliðsmaður spilar fyrir FC Köbenhavn á keppnistímabilinu. Ísak Bergmann er á sínu fyrsta tímabili með Kaupmannahafnarliði eftir að hafa komið þangað frá Norrköping síðsumars á síðasta ári.
Hákon Arnar Haraldsson vermdi varamannabekkinn allan leikinn að þessu sinni. Jöfnunarmark Bröndby kom í uppbótartíma leiksins en FC Köbenhaven hefur gert tvö jafntefli og tapað einum í síðustu þremur deildarleikjum liðsins.
FC Köbenhavn situr á toppi deildarinnar með 59 stig og hefur fjögurra stiga forskot á Elías Rafn Ólafsson og samherja hans hjá Midtjylland þegar þrjár umferðir eru eftir af baráttunni um danska meistaratitilinn.
Midtjylland á leik til góða á FC Köbenhavn en liðið mætir Guðmundi Þórarinssyni og liðsfélögum hans hjá Álaborg þessa stundina. Elías Rafn verður fjarri góðu gamni í þeim leik en hann verður ekki meira með á þessu á tímabili vegna handarbrots.