Innlent

Mun byrja á því að ræða við Rósu

Atli Ísleifsson skrifar
Valdimar Víðisson er oddviti Framsóknarflokksins í Hafnarfirði og skólastjóri Öldutúnsskóla.
Valdimar Víðisson er oddviti Framsóknarflokksins í Hafnarfirði og skólastjóri Öldutúnsskóla. Vísir/Vilhelm

Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknar í Hafnarfirði, segir að Framsóknarmenn muni fyrst eiga viðræður við Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar og oddvita Sjálfstæðismanna, í vikunni um hvort grundvöllur sé fyrir áframhaldandi meirihlutasamstafi flokkanna í bæjarstjórn.

Hann segir að það hafi legið fyrir fyrir kosningar að ef meirihlutinn myndi halda myndu flokkarnir byrja á því að ræða saman. Þetta sagði Valdimar í samtali við fréttastofu í morgun.

„Þar sem að við unnum ágætis sigur, náðum tveimur mönnum þá erum við í ágætis stöðu hvað varðar framhaldið. Við höfum sagt það allan tímann í baráttunni, og við stöndum við það, að ef meirihlutinn myndi halda þá myndum við byrja á því samtali. Formlega er ekkert farið af stað. Við erum enn í okkar hópi, Framsókn, að fara yfir okkar málefni og undirbúa okkur fyrir okkar fyrir næstu skref þess samtals.“

Ræddi bæði við Rósu og Guðmund Árna

Valdimar segist hafa átt samtöl við Rósu um helgina og sömuleiðis hafi Guðmundur Árni verið í sambandi. „Þetta er enn allt með óformlegum hætti, en þetta formlega samtal fer af stað í vikunni við samstarfsflokk okkar á síðasta kjörtímabili og kanna grundvöll fyrir áframhaldandi samstarfi. Það verður svo að koma í ljós hvernig það gengur.“

Sjálfstæðisflokkurinn var með fimm fulltrúa inni á síðasta kjörtímabili, en missti einn í kosningunum nú. Á móti bætti Framsókn við sig manni og tryggði sér tvo bæjarfulltrúa. Ellefu fulltrúar eiga sæti í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og því þarf sex til að mynda meirihluta. Samfylkingin tryggði sér líkt og Sjálfstæðisflokkur fjóra fulltrúa í bæjarstjórn.

Guðmundur Árni óskaði eftir því við oddvita Framsóknar í færslu á Facebook í gærkvöldi að flokkarnir tveir hefji viðræður um myndun nýs bæjarstjórnarmeirihluta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×