Umfjöllun, viðtöl og myndir: Valur - ÍBV 35-25 | Ótrúlegir yfirburðir Vals Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 19. maí 2022 21:11 Frammistaða Björgvins Páls Gústavssonar í fyrri hálfleik gegn ÍBV verður lengi í minnum höfð. vísir/hulda margrét Valur rústaði ÍBV, 35-25, í fyrsta leik liðanna í úrslitum Olís-deildar karla í handbolta í kvöld. Yfirburðir Valsmanna voru svakalegir en þeir voru þrettán mörkum yfir í hálfleik, 22-9, og úrslitin því ráðin. Seinni hálfleikurinn var aðeins formsatriði sem þurfti að ljúka. Miðað við leikinn í kvöld og frammistöðu Vals í úrslitakeppninni til þessa er ekkert annað í kortunum en liðið vinni Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð og það án þess að tapa leik. Spilamennska Valsmanna var stórkostleg og þeir eru ekkert í sömu deild og önnur lið á Íslandi. Frammistaða Eyjamanna var hins vegar sennilega sú versta sem lið hefur sýnt í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Þeir voru ömurlegir á öllum sviðum og toppuðu bullið með fáránlegum brotum trekk í trekk. Eyjamenn gengu hart fram í vörninni, án mikils árangurs.vísir/hulda margrét Stiven Tobar Valencia og Finnur Ingi Stefánsson skoruðu sex mörk hvor fyrir Val og Arnór Snær Óskarsson fimm. Maður leiksins var samt Björgvin Páll Gústavsson sem varði 25 skot, eða helming þeirra skota sem hann fékk á sig. Hann var í svakalegum ham í fyrri hálfleik þar sem hann varði sautján skot (65 prósent). Elmar Erlingsson var langbesti leikmaður ÍBV og skoraði átta mörk. Aðrir gátu lítið sem ekkert. Fyrri hálfleikurinn var lyginni líkastur en aðrir eins yfirburðir hafa varla sést í lokaúrslitum. Frammistaða Valsmanna var mögnuð á meðan Eyjamenn voru ráðalausir. Valsmenn náðu strax frumkvæðinu, keyrðu eins og brjálæðingar og eftir níu mínútur var munurinn orðinn sjö mörk, 9-2. Hraðinn á Val var slíkur að þeir stilltu fyrst upp í sókn eftir sjö mínútur. Tjörvi Týr Gíslason skorar eitt fimmtán marka Vals eftir hraðaupphlaup.vísir/hulda margrét ÍBV tapaði boltanum sex sinnum á fyrstu sex mínútunum og níu sinnum alls í fyrri hálfleik. Og þegar þeir náðu skoti á markið varði Björgvin það oftast. Eyjamenn skoruðu tvö mörk í röð og minnkuðu muninn í fimm mörk, 12-7. En Valsmenn svöruðu með sex mörkum í röð og komust níu mörkum yfir, 18-7. Munurinn jókst bara og jókst og þegar liðin gengu til búningsherbergja skildu þrettán mörk þau að, 22-9. Valur skoraði tólf mörk úr hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik og nokkur til viðbótar eftir hraða miðju. Stiven Tobar Valencia skoraði sex mörk úr sex skotum.vísir/hulda margrét Valsmenn stigu aðeins af bensíngjöfinni í seinni hálfleik, enda búnir að vinna leikinn. Eyjamenn löguðu stöðuna aðeins, Björn Viðar Björnsson var ágætur í marki ÍBV í seinni hálfleik og Elmar skoraði hvert markið á fætur öðru. Á endanum munaði tíu mörkum á liðunum, 35-25, og miðað við getumuninn á þeim í kvöld verður þetta úrslitaeinvígi stutt. En Eyjamenn vilja og þurfa að svara fyrir sig í öðrum leiknum á heimavelli á sunnudaginn. Snorri Steinn: Það eitt og sér á að vera nóg til að ná mönnum niður Snorri Steinn Guðjónsson var eðlilega mjög ánægður með frammistöðu Vals í fyrri hálfleik gegn ÍBV.vísir/hulda margrét Þrátt fyrir að Valur hafi rúllað yfir ÍBV í fyrsta leik úrslitaeinvígis Olís-deildar karla var Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsmanna, með báða fætur kyrfilega á jörðinni í leikslok. „Slökum aðeins á. Þetta er glæsilegur sigur, ekki spurning. Frábær frammistaða hjá mínum mönnum og fyrri hálfleikurinn mjög góður. En við þurfum líka að læra að höndla þetta og koma okkar fljótt niður á jörðina,“ sagði Snorri í leikslok. „Þetta gefur okkur ekki neitt. Það er annar leikur, og öðruvísi leikur, sem bíður okkur í Vestmannaeyjum á sunnudaginn.“ Valur hafði beðið í ellefu daga eftir leik kvöldsins en þrátt fyrir það var ekkert ryð í Hlíðarendaliðinu. „Byrjunin var frábær, krafturinn var svakalegur og við náðum strax vopnum okkar sem gerði þetta svolítið þægilegt. Byrjunin var sterk og lagði grunninn að þessum sigri,“ sagði Snorri. „Hléið var langt en ég veit það ekki, ég velti mér ekkert upp úr þessu. Þetta var eins og þetta var og við þurftum að tækla það og gerðum það vel. Ef þetta hefði farið illa hefðum við getað talað eitthvað um þetta en erum við ekki bara búnir að því núna.“ Harkan í leiknum var mikil og dómararnir höfðu í nægu að snúast. „Þetta var fastur leikur, þetta eru úrslit, Valur og ÍBV, þannig að þetta kemur mér svo sem ekkert á óvart,“ sagði Snorri. Valur er kominn með frumkvæðið í einvíginu en erfiður leikur bíður Íslandsmeistaranna í Eyjum á sunnudaginn. Snorri segir að sínir menn verði með báða fætur á jörðinni í aðdraganda þess leiks. „Ég hef ekkert svakalega miklar áhyggjur af því. Það er annar leikur sem bíður okkar og öðruvísi leikur, það er alveg klárt mál. Við þurfum tvo sigra í viðbót og það eitt og sér á að vera nóg til að ná mönnum niður,“ sagði Snorri. Valur hefur unnið alla sex leiki sína í úrslitakeppninni. Þrátt fyrir það hefur Snorri áhyggjur. „Alltaf. Blessaður vertu, þetta starf er bara áhyggjur,“ sagði Snorri að lokum. Erlingur: Erum langt á eftir körfunni þarna Erlingur Richardsson var eðlilega ekki sáttur með frammistöðu Eyjamanna í fyrri hálfleik.vísir/hulda margrét Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var skiljanlega svekktur eftir tapið fyrir Val í fyrsta leik úrslita Olís-deildar karla í kvöld. „Við tókum aðeins á því í seinni hálfleiknum en ekki í þeim fyrri. Þetta var ekki fallegur leikur og ég veit ekki alveg hvað ég á að segja,“ sagði Erlingur eftir leik. „Í fyrsta lagi komum við ekki alveg nógu vel stemmdir inn í leikinn. Það er númer 1, 2 og 3. Það er líka langt síðan við spiluðum og við misstum kannski smá taktinn milli leikja. En ég lofa þér því að við erum komnir í takt.“ Erlingur vildi ekki fella stóra dóm yfir dómgæslunni í leik kvöldsins en sagði að gera þyrfti breytingar á handboltaíþróttinni. „Það er voðalega erfitt að segja. Við spiluðum auðvitað illa. En ég er búinn að segja það ansi oft að það vantar þriðja dómarann í þessa íþróttagrein ef við ætlum að laga hana eitthvað. Það er erfitt að dæma hana,“ sagði Erlingur. „Það er mikið af bakhrindingum og fautaskap og við erum langt á eftir körfunni þarna. En við þurfum að hugsa um okkur sjálfa núna, stilla okkur af og reyna að finna svör.“ Sem fyrr keyrðu Valsmenn upp hraðann og skoruðu hvorki fleiri né færri en fimmtán mörk eftir hraðaupphlaup í leiknum. „Þeir nýttu það en við misstum boltann fyrir miðju varnarinnar hjá þeim. Við skutum líka illa á Bjögga [Björgvin Pál Gústavsson] í fyrri hálfleik þar sem hann var frábær. Við gerðum betur í seinni hálfleik, það kom smá taktur og við getum byggt á því,“ sagði Erlingur að endingu. Olís-deild karla Valur ÍBV
Valur rústaði ÍBV, 35-25, í fyrsta leik liðanna í úrslitum Olís-deildar karla í handbolta í kvöld. Yfirburðir Valsmanna voru svakalegir en þeir voru þrettán mörkum yfir í hálfleik, 22-9, og úrslitin því ráðin. Seinni hálfleikurinn var aðeins formsatriði sem þurfti að ljúka. Miðað við leikinn í kvöld og frammistöðu Vals í úrslitakeppninni til þessa er ekkert annað í kortunum en liðið vinni Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð og það án þess að tapa leik. Spilamennska Valsmanna var stórkostleg og þeir eru ekkert í sömu deild og önnur lið á Íslandi. Frammistaða Eyjamanna var hins vegar sennilega sú versta sem lið hefur sýnt í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Þeir voru ömurlegir á öllum sviðum og toppuðu bullið með fáránlegum brotum trekk í trekk. Eyjamenn gengu hart fram í vörninni, án mikils árangurs.vísir/hulda margrét Stiven Tobar Valencia og Finnur Ingi Stefánsson skoruðu sex mörk hvor fyrir Val og Arnór Snær Óskarsson fimm. Maður leiksins var samt Björgvin Páll Gústavsson sem varði 25 skot, eða helming þeirra skota sem hann fékk á sig. Hann var í svakalegum ham í fyrri hálfleik þar sem hann varði sautján skot (65 prósent). Elmar Erlingsson var langbesti leikmaður ÍBV og skoraði átta mörk. Aðrir gátu lítið sem ekkert. Fyrri hálfleikurinn var lyginni líkastur en aðrir eins yfirburðir hafa varla sést í lokaúrslitum. Frammistaða Valsmanna var mögnuð á meðan Eyjamenn voru ráðalausir. Valsmenn náðu strax frumkvæðinu, keyrðu eins og brjálæðingar og eftir níu mínútur var munurinn orðinn sjö mörk, 9-2. Hraðinn á Val var slíkur að þeir stilltu fyrst upp í sókn eftir sjö mínútur. Tjörvi Týr Gíslason skorar eitt fimmtán marka Vals eftir hraðaupphlaup.vísir/hulda margrét ÍBV tapaði boltanum sex sinnum á fyrstu sex mínútunum og níu sinnum alls í fyrri hálfleik. Og þegar þeir náðu skoti á markið varði Björgvin það oftast. Eyjamenn skoruðu tvö mörk í röð og minnkuðu muninn í fimm mörk, 12-7. En Valsmenn svöruðu með sex mörkum í röð og komust níu mörkum yfir, 18-7. Munurinn jókst bara og jókst og þegar liðin gengu til búningsherbergja skildu þrettán mörk þau að, 22-9. Valur skoraði tólf mörk úr hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik og nokkur til viðbótar eftir hraða miðju. Stiven Tobar Valencia skoraði sex mörk úr sex skotum.vísir/hulda margrét Valsmenn stigu aðeins af bensíngjöfinni í seinni hálfleik, enda búnir að vinna leikinn. Eyjamenn löguðu stöðuna aðeins, Björn Viðar Björnsson var ágætur í marki ÍBV í seinni hálfleik og Elmar skoraði hvert markið á fætur öðru. Á endanum munaði tíu mörkum á liðunum, 35-25, og miðað við getumuninn á þeim í kvöld verður þetta úrslitaeinvígi stutt. En Eyjamenn vilja og þurfa að svara fyrir sig í öðrum leiknum á heimavelli á sunnudaginn. Snorri Steinn: Það eitt og sér á að vera nóg til að ná mönnum niður Snorri Steinn Guðjónsson var eðlilega mjög ánægður með frammistöðu Vals í fyrri hálfleik gegn ÍBV.vísir/hulda margrét Þrátt fyrir að Valur hafi rúllað yfir ÍBV í fyrsta leik úrslitaeinvígis Olís-deildar karla var Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsmanna, með báða fætur kyrfilega á jörðinni í leikslok. „Slökum aðeins á. Þetta er glæsilegur sigur, ekki spurning. Frábær frammistaða hjá mínum mönnum og fyrri hálfleikurinn mjög góður. En við þurfum líka að læra að höndla þetta og koma okkar fljótt niður á jörðina,“ sagði Snorri í leikslok. „Þetta gefur okkur ekki neitt. Það er annar leikur, og öðruvísi leikur, sem bíður okkur í Vestmannaeyjum á sunnudaginn.“ Valur hafði beðið í ellefu daga eftir leik kvöldsins en þrátt fyrir það var ekkert ryð í Hlíðarendaliðinu. „Byrjunin var frábær, krafturinn var svakalegur og við náðum strax vopnum okkar sem gerði þetta svolítið þægilegt. Byrjunin var sterk og lagði grunninn að þessum sigri,“ sagði Snorri. „Hléið var langt en ég veit það ekki, ég velti mér ekkert upp úr þessu. Þetta var eins og þetta var og við þurftum að tækla það og gerðum það vel. Ef þetta hefði farið illa hefðum við getað talað eitthvað um þetta en erum við ekki bara búnir að því núna.“ Harkan í leiknum var mikil og dómararnir höfðu í nægu að snúast. „Þetta var fastur leikur, þetta eru úrslit, Valur og ÍBV, þannig að þetta kemur mér svo sem ekkert á óvart,“ sagði Snorri. Valur er kominn með frumkvæðið í einvíginu en erfiður leikur bíður Íslandsmeistaranna í Eyjum á sunnudaginn. Snorri segir að sínir menn verði með báða fætur á jörðinni í aðdraganda þess leiks. „Ég hef ekkert svakalega miklar áhyggjur af því. Það er annar leikur sem bíður okkar og öðruvísi leikur, það er alveg klárt mál. Við þurfum tvo sigra í viðbót og það eitt og sér á að vera nóg til að ná mönnum niður,“ sagði Snorri. Valur hefur unnið alla sex leiki sína í úrslitakeppninni. Þrátt fyrir það hefur Snorri áhyggjur. „Alltaf. Blessaður vertu, þetta starf er bara áhyggjur,“ sagði Snorri að lokum. Erlingur: Erum langt á eftir körfunni þarna Erlingur Richardsson var eðlilega ekki sáttur með frammistöðu Eyjamanna í fyrri hálfleik.vísir/hulda margrét Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var skiljanlega svekktur eftir tapið fyrir Val í fyrsta leik úrslita Olís-deildar karla í kvöld. „Við tókum aðeins á því í seinni hálfleiknum en ekki í þeim fyrri. Þetta var ekki fallegur leikur og ég veit ekki alveg hvað ég á að segja,“ sagði Erlingur eftir leik. „Í fyrsta lagi komum við ekki alveg nógu vel stemmdir inn í leikinn. Það er númer 1, 2 og 3. Það er líka langt síðan við spiluðum og við misstum kannski smá taktinn milli leikja. En ég lofa þér því að við erum komnir í takt.“ Erlingur vildi ekki fella stóra dóm yfir dómgæslunni í leik kvöldsins en sagði að gera þyrfti breytingar á handboltaíþróttinni. „Það er voðalega erfitt að segja. Við spiluðum auðvitað illa. En ég er búinn að segja það ansi oft að það vantar þriðja dómarann í þessa íþróttagrein ef við ætlum að laga hana eitthvað. Það er erfitt að dæma hana,“ sagði Erlingur. „Það er mikið af bakhrindingum og fautaskap og við erum langt á eftir körfunni þarna. En við þurfum að hugsa um okkur sjálfa núna, stilla okkur af og reyna að finna svör.“ Sem fyrr keyrðu Valsmenn upp hraðann og skoruðu hvorki fleiri né færri en fimmtán mörk eftir hraðaupphlaup í leiknum. „Þeir nýttu það en við misstum boltann fyrir miðju varnarinnar hjá þeim. Við skutum líka illa á Bjögga [Björgvin Pál Gústavsson] í fyrri hálfleik þar sem hann var frábær. Við gerðum betur í seinni hálfleik, það kom smá taktur og við getum byggt á því,“ sagði Erlingur að endingu.
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti