Fótbolti

UEFA fyrirskipar rannsókn vegna atburðanna í París

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fjölmargir stuðningsmenn Liverpool hafa sagt frá ofbeldi af hálfu frönsku lögreglunnar.
Fjölmargir stuðningsmenn Liverpool hafa sagt frá ofbeldi af hálfu frönsku lögreglunnar. Matthias Hangst/Getty Images

Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, tilkynnti í kvöld að sambandið myndi standa að sjálfstæðri og óháðri rannsókn á atburðum fyrir utan Stade de France-völlinn í París þegar Liverpool og Real Madríd áttust við úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á laugardagskvöld.

Leikurinn tafðist um meira en hálftíma þar sem fjölmargir stuðningsmenn Liverpool, sem höfðu beðið í yfir tvær klukkustundir, stóðu enn í röð utan vallarins þegar leikurinn átti upprunalega að hefjast. Fjölmörg myndbönd birtust af franskri lögreglu að beita táragasi á stuðningsmenn liðsins sem voru margir hverjir enn í röð eftir að leikurinn hófst.

Lögreglan í París hefur sætt mikilli gagnrýni vegna málsins. Frönsk yfirvöld sendu frá sér tilkynningu í dag þar sem stórfelldu miðasvindli var kennt um ástandið sem skapaðist.

Í yfirlýsingu UEFA í dag segir að yfirgripsmikil og óháð rannsókn muni fara fram, þar sem þónokkrir þættir verða til skoðunar. Þar á meðal er ákvarðanataka, ábyrgð og hegðun þeirra sem áttu hlut að máli á laugardagskvöld.

Meðal hlutaðeigandi aðila eru UEFA sem skipulagsaðili, frönsk yfirvöld, lögreglan í París og stuðningsmenn Liverpool.

Dr. Brandao Rodrigues, sem er portúgalskur þingmaður og fyrrum menntamálaráðherra þar í landi, mun leiða rannsóknina. Fram kemur í yfirlýsingu UEFA að hann geri það án greiðslu frá sambandinu (e. pro bono) til að gætt sé að heilindum.

Real Madrid vann leikinn á laugardag 1-0 og vann þar með sinn 14. Meistaradeildartitil.


Tengdar fréttir

Menningarmálaráðherra Bretlands kallar eftir rannsókn frá UEFA

Nadine Dorries, menningarmálaráðherra Bretlands, hefur kallað eftir því að evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hefji formlega rannsókn á þeim atburðum sem áttu sér stað fyrir utan Stade de France áður en úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fór fram í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×